Vextir óbreyttir enn um sinn

Peningastefnunefnd Seðlabankans tilkynnti í morgun að meginvöxtum bankans yrði haldið óbreyttum, í samræmi við væntingar greiningaraðila. Standa þeir því enn í 0,75% sem er tveimur prósentustigum lægra en við upphaf heimsfaraldursins. Raunvextir bankans standa því í -3,2% miðað við 12 mánaða verðbólgu. Á þann mælikvarða eru raunstýrivextir nokkru lægri en hjá samanburðarþjóðum, enda mælist verðbólga hér á landi nokkuð meiri. 

Á fundi nefndarinnar í byrjun febrúar síðastliðnum voru allir nefndarmenn á eitt sáttir um að halda meginvöxtum bankans óbreyttum. Enn vegast á sjónarmið um slaka í hagkerfinu annars vegar og aukna verðbólgu hins vegar, sem er enn lítillega yfir efri vikmörkum verðbólgumarkmiðs bankans. Má í yfirlýsingunni merkja létti yfir betri hagvaxtartölum fyrir seinasta ár en óttast var, og því minni þörf á frekari vaxtalækkunum, en á sama tíma nokkrar áhyggjur af kjölfestu verðbólguvæntinga, sem væri þá fremur tilefni til vaxtahækkana. Því þarf ekki að koma á óvart að meginvöxtum bankans hafi verið haldið óbreyttum enn um sinn. 

Gerólík viðbrögð 

Í kjölfar fjármálakreppunnar hríðféll gengi krónunnar og verðbólga rauk upp í nær 19% þegar mest lét, en viðbragð Seðlabankans þá fólst í því að hækka vexti. Í október 2008 voru meginvextir bankans hækkaðir um fjórar prósentur í einu vetfangi, upp í 18%. Viðbrögðin í þetta sinn hafa verið gerólík. Til að styðja við aðgerðir stjórnvalda, endurspegla breyttar efnahagshorfur og auka fjárhagslegt svigrúm heimila og fyrirtækja lækkaði Seðlabankinn meginvexti sína síðastliðið vor, þrátt fyrir veikara gengi og aukna verðbólgu. Hafa vextirnir lækkað í skrefum frá mars 2020 og farið úr 2,75% niður í 0,75% þar sem þeir standa nú.  

Hafa vaxtalækkanir skilað árangri? 

Sé horft til aukinna útlána innlánsstofnana má segja að vaxtalækkanirnar hafi skilað sér í meira mæli til heimila en fyrirtækja. Hrein ný útlán innlánsstofnana til atvinnufyrirtækja námu 8 milljörðum á seinasta ári á meðan hrein ný útlán til heimila námu 320 milljörðum. Í einhverjum tilvikum hefur reyndar verið um endurfjármögnun fasteignalána að ræða en markaðshlutdeild viðskiptabankanna hefur aukist á kostnað lífeyrissjóðanna að undanförnu vegna betri lánakjara þeirra. Þá hefur aukin ásókn heimila verið í óverðtryggð lán sem og lán með breytilegum vöxtum sem ætti að auka virkni peningastefnunnar horft fram á veg. 

Fyrstu kaupendur fasteigna hafa aldrei verið fleiri, en á seinasta ári var nær einn af hverjum þremur fasteignakaupendum að festa kaup á sinni fyrstu fasteign. Vaxtalækkanirnar hafa þannig bæði aukið ráðstöfunartekjur margra, þökk sé lægri greiðslubyrði lána, en einnig gert stærri hóp fólks kleift að binda sparnað sinn í fasteign. Auknar ráðstöfunartekjur heimilanna hafa vafalaust stutt við innlenda einkaneyslu sem hefur verið umfram væntingar seinustu misseri. 

Velta ársins 2020 á fasteignamarkaði náði sömu hæðum og sást fyrir fjármálakreppu. Þrátt fyrir það hafa íbúðaverðshækkanir haldist fremur hóflegar miðað við verðlag og hefur leiguverð reyndar lækkað að teknu tilliti til verðbólgu. Á seinasta ári mældust verðhækkanir íbúðarhúsnæðis um 3,6% að raunvirði, sem er nokkurn veginn í takt við kaupmáttaraukningu launa á árinu. Til samanburðar mældist raunhækkun íbúðaverðs 15,5% á árinu 2017, sem var langt umfram launahækkanir þess árs. Verðhækkanir íbúðarhúsnæðis að undanförnu hafa því þróast ágætlega í takt við undirliggjandi þætti, svo sem laun og verðlag, þrátt fyrir sögulega lágt vaxtastig. 

Hafa vaxtalækkanir ekki skilað sér til fyrirtækja? 

Þó að vaxtalækkanir Seðlabankans endurspeglist ekki í auknum útlánum innlánsstofnana til fyrirtækja hafa þær óneitanlega dregið úr greiðslubyrði lána þeirra fyrirtækja sem eru með lán á fljótandi vöxtum. Þá hafa þær örvað eftirspurn með auknum ráðstöfunartekjum heimila og því skilað sér til fyrirtækja í formi aukinnar neyslu. Einkaneyslan var talsvert sterkari á seinasta ári en vonir stóðu til. Þó erfitt sé að meta áhrifin nákvæmlega má ætla að vaxtalækkanir Seðlabankans hafi þar haft sitt að segja. Þá hafa aðrar aðgerðir Seðlabankans, svo sem lækkun bindiskyldu, gert bankakerfið betur í stakk búið til að styðja við fyrirtæki í formi aukinna útlána þegar aðstæður leyfa. 

Ýmis fyrirtæki eru vitanlega enn undir áhrifum sóttvarnaraðgerða og eru því áfram í vanda, en ekki er víst að aukin skuldsetning sé ákjósanlegasti kostur þeirra í núverandi stöðu. Þar hafa aðrar aðgerðir yfirvalda gagnast í einhverjum tilvikum, svo sem beinir styrkir, frestun opinberra gjalda, greiðsluskjól, stuðningslán og hlutastarfaleiðin.  

Framboðsskortur íbúðarhúsnæðis gæti leitt til verðhækkana 

Vaxtalækkanirnar hafa einnig skilað sér með beinum og óbeinum hætti í aukna íbúðafjárfestingu en samdráttur hennar á seinasta ári reyndist mun minni en óttast var. Um tíma var talið að samdráttur íbúðafjárfestingar gæti numið allt að 19% en reyndist nær 1% miðað við bráðabirgðatölur Hagstofunnar. Þá er ekki að sjá að kórónukreppan hafi haft jafn neikvæð áhrif á atvinnustig í byggingariðnaði og raunin var eftir fjármálakreppuna þar sem hlutfall atvinnulausra í byggingariðnaði fór yfir 20%.  

Áhyggjur hafa verið viðraðar af mögulegum framboðsskorti á næstu misserum en talningar Samtaka iðnaðarins endurspegla fækkun í fjölda nýbygginga á næstu árum. Því er mikilvægt að íbúðafjárfesting haldi dampi til að halda aftur af verðhækkunum íbúðarhúsnæðis í framtíðinni. Stuðningur við íbúðamarkað í formi vaxtalækkana og annarra hvata til fjárfestinga í íbúðarhúsnæði, svo sem aukinni endurgreiðslu virðisaukaskatts, ætti að hjálpa til við að sporna gegn þeirri þróun. Í því samhengi er einnig mikilvægt að huga að lóðaframboði, skilvirkari leyfisveitingarframkvæmd og sveigjanlegri byggingarreglugerð sem heimilar nýstárlegar og skapandi lausnir til að draga úr kostnaði íbúðarhúsnæðis. 

Brothætt jafnvægi 

Viðbrögð yfirvalda við heimsfaraldri kórónuveiru hafa verið fjölþætt. Ráðist var í ýmsar sértækar aðgerðir til handa heimilum og fyrirtækjum sem flestar höfðu það að markmiði að verja störf. Þó deila megi um einstaka aðgerðir hafa þær heilt á litið gagnast vel samkvæmt niðurstöðum kannana á vegum Samtaka atvinnulífsins. Þrátt fyrir það er atvinnuleysi enn mun meira en við verður unað. Sú verður að líkindum staðan á meðan strangar sóttvarnaraðgerðir gilda.  

En hlutverk Seðlabankans hefur ekki síður verið mikilvægt. Gengi krónu hefur haldist merkilega stöðugt sé tekið mið af því að hrun varð í einni aðalútflutningsgrein þjóðarbúsins og væntingar um verðbólgu við markmið virðast enn halda ágætlega þrátt fyrir sögulega lágt vaxtastig. Landsframleiðslutölur seinasta árs máluðu jákvæðari mynd en vænta mátti. Það má því segja að ágætur árangur hafi náðst í hagstjórninni með margvíslegum viðbrögðum yfirvalda og Seðlabankans þó enn séu verk óunnin og staðan að mörgu leyti brothætt. Mikilvægt er að kjölfesta verðbólguvæntinga haldi á meðan hagkerfið vinnur sig upp í fyrri framleiðslugetu. 

Eins og Seðlabankastjóri hefur bent á geta báðir hagstjórnaraðilar ekki stigið á bensíngjöfina um leið og aðstæður fara að glæðast. Því má telja ólíklegt að vextir verði lækkaðir frekar á næstunni. Reynist verðbólgan þrálát eða fari ríkisfjármálin úr böndunum er hins vegar viðbúið að hækka þurfi vexti þegar fram líða stundir. Verkefnið framundan er að styðja við endurreisn hagkerfisins - án þess að jafnvægi í ríkisfjármálum eða verðstöðugleika sé ógnað.