Það virðast allir sem vettlingi geta valdið ætla að ferðast innanlands í sumar. Sem er viðeigandi því stundum þarf maður að vera með vettlinga á Íslandi um hásumar. Það er hið best mál þótt það sé ljóst að það dugi hvergi nærri til að vega upp á móti hruni í komu ferðamanna.
Ég sé bara einn galla við þessi áform, og hann er reyndar risavaxinn. Þess er þá ekki langt að bíða að hneykslunargjarnt fólk á samfélagsmiðlum byrji að kvarta yfir því hvað einhver tertusneið kostaði á einhverjum veitingastað í einhverju plássi út á landi. Áður en til þess kemur er ágætt að hafa nokkur atriði í huga.
Í fyrsta lagi eru laun há á Íslandi. Launahlutfallið, þ.e. hlutfall verðmætasköpunar sem skilar sér til launafólks, er hærra en í nokkru þróuðu ríki. Þá eru meðaltekjur þær þriðju hæstu í heimi. Í öðru lagi eru skattar háir á Íslandi. Skatttekjur hins opinbera sem hlutfall af vergri landsframleiðslu eru þær aðrar til þriðju hæstu í heimi. Í þriðja lagi er vert að hafa í hug að stærstu hluti tekna ferðaþjónustunnar kemur yfir sumarið, einkum úti á landi. Það þarf hinsvegar að greiða allan fastan kostnað allt árið, eins og húsnæðiskostnað, þótt innkoma sé ef til vill lítil sem engin.
Höfum þetta í huga þegar við ferðumst um landið í sumar og höfum hugfast að það mun líklega enginn í ferðaþjónustu ríða feitum hesti frá þessu sumri. Jafnvel þótt við verðum mjög dugleg að kaupa tertusneiðar.
Davíð Þorláksson, forstöðumaður samkeppnishæfnisviðs Samtaka atvinnulífsins.
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu þann 20. maí.