Verslað með losunarkvóta
Nú í haust hafa um það bil tíu til tólf þúsund fyrirtæki innan Evrópusambandsins fengið úthlutað heimildum til losunar á lofttegundinni CO2 (koltvísýringi) í andrúmsloftið. Þetta er sú lofttegund sem talin er ráða mestu um svokölluð gróður-húsaáhrif og hlýnun andrúmsloftsins. CO2 verður einkum til við bruna lífræns eldsneytis, svo sem kola, olíu, gass og viðar.
Þessar útblástursheimildir gilda fyrir árin 2005 til 2007 og eru um 95% af áætlaðri losun á viðmiðunarárunum frá 1998-2002. Kvótakerfi þetta verður til vegna svokallaðrar Kyoto bókunar við loftslagssamning Sameinuðu þjóðanna, en með henni hafa margar þjóðir skuldbundið sig til að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið við ákveðið magn, m.a. Ísland. Kyoto bókunin gildir fyrir árin 2008 til 2012 og er úthlutunin nú til undirbúnings þess tímabils en gert er ráð fyrir að á næsta tímabili verði heimildir minnkaðar frá því sem nú er, fleiri fyrirtæki muni falla undir kvótakerfið og eins að kvótakerfið muni ná til fleiri lofttegunda. Auk Evrópu-sambandsþjóðanna hafa Norðmenn sett upp sambærilegt kerfi hjá sér. Þau fyrirtæki sem falla undir þessa fyrstu úthlutun ESB eru einkum stór orkufyrirtæki og stál- og málmbræðslur (ekki álver), steinefnaiðnaður og sements-fyrirtæki sem nota mikið af lífrænum orkugjöfum. Í Danmörku eru þessi fyrirtæki um 360 talsins.
Kerfi framseljanlegra kvóta
Kvótakerfinu svipar að mörgu leyti til fiskveiðistjórnunarkerfis Íslendinga þar sem kvótarnir eru framseljanlegir á milli fyrirtækja og á milli landa. Fyrsta úthlutun nær reyndar aðeins til þriggja ára og ekki er heimilt að flytja kvóta yfir á næsta tímabil sem verður 5 ár. Viðskipti með CO2 kvóta hafa aukist gríðarlega og er talið að þau hafi verið um 1,7 milljónir tonna í október og 1,3 milljónir tonna í september. Ekki liggja fyrir upplýsingar um verð í þessum viðskiptum en sést hafa tölur á bilinu 10-30 evrur á tonn, eða um það bil 900 til 2.700 kr á tonn af CO2. Haldið er utan um heimildir í einstökum löndum í kvótaskrá sem er einungis rafræn og geta kvótaeigendur ráðstafað heimildum sínum út af þessum skrám til annarra eftir ákveðnum reglum. Viðamikið kerfi til eftirlits og staðfestinga verður sett upp.
Sveigjanleiki
Auk þessa geta menn aflað sér heimilda frá öðrum löndum með svokölluðum CDM verkefnum (Clean Development Mechansim) þar sem eitt fyrirtæki vinnur að því að minnka útblástur í þróunarríki t.d. með því að setja upp hitaveitu og fær með því auknar heimildir til losunar í heimalandinu. Ýmsir þess háttar möguleikar til sveigjanleika fylgja loftslags-samningnum og Kyoto bókuninni. Nánast öll ríki (180-190) eru aðilar að loftslagssamningnum sjálfum, þar á meðal Bandaríkin, Kanada, Ástralía, Kína og Indland, og hafa þar með skuldbundið sig til að draga almennt úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda þótt þau hafi kosið að gerast ekki aðilar að Kyoto bókuninni.
Reiknað er með að fljótlega hefjist samningaviðræður um hvað taka muni við eftir 2012 þegar tímabili Kyoto bókunarinnar lýkur. Þá er mjög mikilvægt að náist alþjóðlegt samkomulag sem nái einnig til flestra þeirra ríkja sem ekki eru aðilar að Kyoto bókuninni því aðgerðir sem nær einungis ná til ESB ríkjanna munu nánast engu skila til að draga úr hlýnun á jörðunni.
Almennar aðgerðir hérlendis
Ísland er aðili að Kyotobókuninni og allar líkur eru á að landið nái að uppfylla ákvæði bókunarinnar með almennum aðgerðum samkvæmt stefnumörkun ríkisstjórnarinnar frá 2002 um breytingar á skattlagningu á díselbílum, að útstreymi flúorkolefna frá áliðnaði verði haldið í lágmarki, að dregið verði úr orkunotkun fiskiskipa, að dregið verði úr urðun úrgangs og aukin verði binding kolefnis með skógrækt og landgræðslu. Stefnumörkunin verður endurskoðuð á næsta ári reynist tilefni til. Óvíst er hvort tilskipun ESB um kvótakerfi fyrir CO2 verði tekin inn í EES samninginn og því er ekki verið að innleiða slíkt kerfi hér á landi. Talið er að einungis Steinullarverkmiðjan myndi falla undir ákvæði fyrstu úthlutunarinnar en fyrirtækin yrðu væntanlega mun fleiri á síðari stigum. Eins og kunnugt er fengu Íslendingar viðurkennda ákveðna sérstöðu vegna nýtingar á endur-nýjanlegum orkulindum til stóriðjuverkefna þar sem slík verkefni valda mun minni útblæstri gróðurhúsalofttegunda en ef lífrænt eldsneyti væri nýtt til orkuframleiðslunnar. Mikilvægt er að í næstu samningslotu verði áfram tekið tillit til þessarar sérstöðu Íslands.