Verkföll valda umsvifalaust tjóni
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, leggur í samtali við RÚV megináherslu á að menn forðist verðbólguskot með öllum tiltækum ráðum og bendir á að verkföll valdi umsvifalaust verulegu fjárhagslegu tjóni.
Kjaraviðræður snúist um uppbyggingu lífskjara og þróun samfélagsins. Samtök atvinnulífsins hafi lagt fram heildstætt tilboð þar sem þau meti hvað samfélagið geti borið án þess að farið verði í verðhækkanir, uppsagnir og verðbólga fari af stað. „Samtök atvinnulífsins munu ekki hleypa verðbólgunni af stað."
Á vef RÚV er bent á að formenn fjögurra verkalýðsfélaga hafa fengið umboð til að slíta viðræðum við Samtök atvinnulífsins. Í Bítinu á Bylgjunni í morgun sagði Halldór Benjamín að um leið og boðað sé til atkvæðagreiðslu um verkföll valdi það tjóni og takmarki getu fyrirtækja til að hækka laun. Allt samfélagið muni verða fyrir tjóni.
„Verkföll eru allra tap. Bara það að atkvæðagreiðsla hefjist um verföll, verkfallsboðanir, veldur gríðarlegu fjárhagslegu tjóni í samfélaginu og fyrir fyrirtæki.“