Verkefnamiðlun tengir fyrirtæki og nemendur
Á hverju ári leita hundruð háskólanemenda að spennandi og hagnýtum lokaverkefnum. Til að auðvelda leitina hafa Samstök atvinnulífsins skrifað undir samstarfssamning við Íslenska sjávarklasann um að taka þátt í að byggja upp hugmyndabanka um lokaverkefni á vefnum. Þar geta fyrirtæki sett inn verkefni sem þau vilja gjarnan láta vinna og nemendur komist í bein tengsl við fyrirtæki sem þau hafa áhuga á að vinna fyrir.
Samtök atvinnulífsins hvetja aðildarfyrirtæki SA til að taka þátt í verkefninu og nýta þetta góða tækifæri. Nemendur fá hagnýta reynslu og kynnast atvinnulífinu af eigin raun á meðan námi stendur og fyrirtæki fá aðstoð við að leysa úr brýnum viðfangsefnum.
Slóðin á hugmyndabankann er www.verkefnamidlun.is en verkefnið er samstarfsverkefni skóla, klasa og Samtaka atvinnulífsins.
Skráningar fyrir nemendur og fyrirtæki er þeim að kostnaðarlausu og verkefni geta verið í hvaða atvinnugrein sem er.
Meðal verkefna sem nú er að finna á vefnum er t.d. hönnunarverkefni með skírskotun til sjávarútvegs, útlitshönnun bifreiða, gerð rafrænnar vöruhandbókar fyrir framsækið iðnfyrirtæki, fiskeldi á Vestfjörðum og verkefni um framleiðslu á etanóli með hitakærum bakteríum.