Verður lestur óþarfur á morgun?

Nýkjörinn formaður Félags grunnskólakennara sagði í viðtali í Kastljósi í gærkvöldi að þekking sem mæld er í PISA könnuninni gæti orðið úrelt á morgun. Þetta er viðbrögð hennar við því að námsárangur 15 ára íslenskra nemenda hefur farið versnandi. Árangurinn hefur versnað um 5% í lestri síðan 2000, 5,3% í stærðfræði síðan 2003 og 3,6% í náttúrufræði síðan 2006. Við komum ekki vel úr alþjóðlegum samanburði, ekki síst í ljósi þess að engin þjóð ver jafn miklum fjármunum til grunnskólans eins og við.

Hvað er PISA?
Alþjóðlega námsmatskerfið (e. Program for International Student Assessment, skammstafað PISA) var hleypt af stokkunum af Efnahags og framfarastofnuninni (e. Organization for Economic Co-operation and Development, skammstafað OECD) árið 2000. Þróuðustu ríki heims eiga aðild að OECD og nú eru 34 þeirra einnig þátttakendur í PISA auk annarra. Þetta eru þau lönd heims sem við eigum helst að bera okkur saman við. Sérfræðingar í menntun frá öllum heimshornum hafa komið að þróun kerfisins. Öll þau 80 hagkerfi sem hafa tekið þátt hafa lagt til sumt af sínu besta fólki.

Eftir að árangur íslenskra ungmenna fór versnandi fór að gæta nokkurrar gagnrýni, einkum frá þeim sem bera ábyrgð á menntun grunnskólabarna. Könnunarprófin eru ekki fullkomin frekar en önnur próf. Ekki hefur hins vegar verið sýnt fram á að PISA kannanirnar nýtist ekki til að bera saman árangur íslenskra ungmenna milli ára eða bera gengi þeirra saman við jafnaldra í öðrum löndum. Enginn betri mælikvarði er til.

Hvað er prófað?
Hæfni í lestri, stærðfræði og náttúruvísindum er prófuð í PISA. Það eru vissulega greinar sem þróast, einkum náttúruvísindin, en aldrei hefur þekking í þessum greinum geta talist úrelt þótt gömul sé. Maðurinn hefur líklega haft hæfni til að lesa í um 10.000 ár. Maðurinn hefur líklega getað talið öll þau 200.000 til 300.000 ár sem hann hefur verið til en farið að beita flókinni stærðfræði á tímum Babýloníumanna og Forn-Egypta fyrir um 5.000 árum. Einhverjir telja að frumstæð náttúruvísindi hafi komið á undan læsi, þar sem þau voru nauðsynleg til að lifa af. En sem formleg vísindagrein er hún um 5.000 til 5.500 ára gömul, frá tímum Mesópótamíu og Forn-Egyptalands.

Það er erfitt að spá, sérstaklega um framtíðina
Formaður Félags grunnskólakennara sagði: „Það á að felast í menntun að auka og ydda mennskuna. Það hvort að við séum að koma vel út í einhverri þekkingarleit eða Pisa-prófum er þekking sem getur jafnvel orðið úrelt á morgun eins og bensínbílarnir eða eitthvað annað.“

Það er engin tilviljun að lestur, stærðfræði og náttúruvísindi eru sérstaklega prófuð. Þessar greinar eru grundvöllurinn að öllu frekara námi. Lestur og stærðfræði eru nokkuð fastmótuð, en náttúruvísindin byggja einmitt á þeirri grunnforsendu að öll þekking þróast og að við hana sé bætt. Hún byggir ekki á því að við séum núna á þessum tímapunkti búin að höndla einhvern algildan sannleika um allt. Þetta eru einmitt greinarnar sem þarf að kunna skila á til að „auka og ydda mennskuna.“

Nú kann að vera að 5.000 til 300.000 ára sögu þessara greina líði undir lok einhvertímann. Líklega verður það sama dag og siðmenningin líður undir lok. Ég efa hins vegar að það borgi sig að gera ráð fyrir að sá dagur sé á morgun þegar ákvarðanir eru teknar varðandi uppbyggingu grunnskólakerfisins.

Davíð Þorláksson, forstöðumaður samkeppnishæfnisviðs SA.

Greinin birtist á mbl.is 23. janúar 2018