Vel sóttur fundur um áhættugreiningu og áhættumat
Um 60 manns mættu á fund SA um áhættugreiningu og áhættumat þann 26. október en fundurinn bar yfirskriftina: Er allt á hreinu í þínu fyrirtæki? Vegna aukinna krafa í sífellt fleiri lögum og reglugerðum um að fyrirtæki láti gera sérstakt áhættumat og áhættugreiningu á rekstri sínum, er mikilvægt að stjórnendur geri sér grein fyrir í hverju áhættumat og áhættugreining felst, hvenær þeim beri skylda til að láta framkvæma áhættumat og hvernig.
Aukin þörf á áhættustjórnun
Dr. Björn Karlsson, brunamálastjóri sagði sífellt aukna þörf á áhættustjórnun þar sem samfélagið verði stöðugt flóknara og viðkvæmara fyrir skaða. Markmiðið er að minnka kostnað sem áhættunni er samfara. Með áhættu er átt við líkindi á því einhver tiltekinn atburður sem veldur skaða geti orðið margfaldað með umfangi skaðans. Þau svið sem opinberar eftirlitsstofanir beita sér að tengjast helst öryggi, heilsu og umhverfi. Áhættu er unnt að greina huglægt á einfaldan hátt og einnig með magnbundnum aðferðum þar sem unnt er að bera saman niðurstöður eftir því hvaða lausn er valin. Munur getur verið á áhættu tiltekins einstaklings og áhættu samfélagsins. Unnt er að draga úr áhættunni með því að tryggja öryggi í upphafi, með fyrirbyggjandi og takmarkandi aðgerðum og með vel undirbúnum og skipulögðum björgunaðgerðum.
Óvæntir atburðir hafa víðtækar afleiðingar
Gestur Pétursson, framkvæmdastjóri InPro sem sérhæfir sig í áhættustýringu og kerfisbundinni stjórnun sagði að notkun orðanna "áhætta" og "öryggi" í lagatextum hefði aukist mjög mikið á undanförnum árum. Lagatextarnir væru margir tugir og reglugerðirnar mörg hundruð. Flækjustig samfélagsins hefur aukist hratt og óvæntir atburðir hafa mun víðtækari afleiðingar en áður fyrr. Þegar áhætta er metin er mjög mikilvægt að hafa í huga samhengi hennar við aðra þætti. Hann nefndi dæmi um að með áhættustýringu mætti ná mikilli fækkun vinnuslysa og fjarveru fólks frá vinnu. Nýting auðlinda yrði betri og umhverfisóhöppum fækkaði verulega. Auk þessa skilaði áhættustýring aukinni framleiðslu og minni rekstrartruflunum en áður.
Skriflegt áhættumat vegna varna gegn mengun hafs og stranda
Helgi Jensson, forstöðumaður eftirlits- og framkvæmdasviðs Umhverfisstofnunar fjallaði um lög um varnir gegn mengun hafs og stranda. Þar er krafist áhættumats af þeim fyrirtækjum sem undir lögin falla auk viðbragðsáætlana. Þetta mat þarf ekki að vera umfangsmikið en verður að vera skriflegt og fela í sér að farið hafi verið yfir alla helstu áhættuþætti og líkur á óhappi metnar ásamt hugsanlegu umfangi þeirra. Þannig koma fram þau atriði sem bæta þarf úr.
Ábyrgð atvinnurekenda
Inghildur Einarsdóttir, vinnuvistfræðingur hjá Vinnueftirliti ríkisins, fjallaði um nýlegar breytingar á lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum þar sem kveðið er á um að atvinnurekandi beri ábyrgð á að gerð sé skrifleg áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað sem á að fela í sér mat á áhættu og áætlun um forvarnir. Hún sagði Vinnueftirlitið notast við aðferð sem byggist á sex skrefum þar sem byrjað væri á að finna áhættuþætti og skilgreina það sem bæta þyrfti úr. Skilgreint er hverjir eru í áhættu, hún flokkuð, gerð áætlun um aðgerðir og skýrsla gerð. Í þessu sambandi hefur stofnunin gefið út s.k. vinnuumhverfisvísa fyrir um 20 atvinnugreinar. Með því að meta líkur og afleiðingar megi finna þau atriði sem mikilvægast er að bæta úr og setja í forgangsröð.
Erindi fundarmanna
1. Inngangserindi - Dr. Björn Karlsson, brunamálastjóri.
2.
Dæmi um áhættugreiningu og áhættumat - Gestur Pétursson,
Inpro.
3. Áhættumat og
viðbragðsáætlanir - Helgi Jensson, Umhverfisstofnun.
4. Dæmi um
hollustu og öryggi á vinnustöðum - Inghildur Einarsdóttir,
Vinnueftirlitinu.