Veiðigjöld og tekjuskattur sjávarútvegs margfaldast frá 2008
Í nýrri skýrslu Íslandsbanka um íslenskan sjávarútveg kemur fram að álögð veiðigjöld á sjávarútvegsfyrirtæki vegna fiskveiðiársins 2012/2013 nema um 10,7 milljörðum króna. Þá var greiddur tekjuskattur sjávarútvegsfyrirtækja vegna rekstrarársins 2012 9 milljarðar króna og hækkaði hann um 3,5 milljarða á milli ára. Alls greiddu íslensk sjávarútvegsfyrirtæki því tæpa 20 milljarða króna á árinu 2012 í veiðigjöld og tekjuskatt.
Á kynningarfundi Íslandsbanka um skýrsluna benti Þorvarður Gunnarssonar forstjóri Deliotte á að þetta væri margföldun frá árinu 2008 en þá nam greiddur tekjuskattur sjávarútvegsfyrirtækja 1,2 milljörðum króna. Þorvarður sagði jafnframt að veiðigjöldin verði svipuð fyrir fiskveiðiárið 2013/2014 en upphæðin er um 7,4% af útflutningstekjum sjávarafurða fyrir árið 2012 sem námu alls 269 milljörðum króna. Þorvarður fjallaði einnig um nauðsyn þess að núverandi lög um veiðigjöld verði endurskoðuð vegna skaðlegra áhrifa þeirra á greinina í núverandi mynd.
Í skýrslu Íslandsbanka kemur fram að tekjur ríkisins af sjávarútvegi hafi aukist samhliða aukinni arðsemi í greininni og útlit sé fyrir að skatttekjur muni enn aukast þar sem sjávarútvegsfyrirtæki hafi greitt niður skuldir á undanförnum árum.
Fjallað er um erindi Þorvarðar á vef LÍÚ
Samantekt um skýrslu Íslandsbanka má nálgast hér