Vaxtalækkun nauðsynleg til að örva fjárfestingu
Á síðasta einu og hálfu ári hefur Seðlabankinn hækkað stýrivexti
sex sinnum, úr 4,25% í 6,0%, eða um 1,75%. Ákvarðanir
peningastefnunefndar bankans byggja jafnan á spá bankans um stöðu
og horfur í efnahagsmálum. Eins og fram kemur í yfirliti Samtaka
atvinnulífsins hafa þessar vaxtaákvarðanir byggst á því að
umtalsverður vöxtur væri í efnahagslífinu og fjárfestingum, einkum
fjárfestingum atvinnulífsins. Ákvarðanirnar hafa byggst á áætlunum
bankans að samanlagður hagvöxtur áranna 2012 og 2013 yrði 4,7%-5,5%
og fjárfestingar ykjust samtals um 15-30%.
Annað hefur komið á daginn samkvæmt síðustu þjóðhagsspá
Hagstofunnar þar sem samanlagður hagvöxtur áranna 2012 og 2013 er
áætlaður 3,5%, í stað allt að 5,5%, og samanlagðar fjárfestingar
áætlaðar aukast um 2% í stað 15-30%. Seðlabankinn hefur því tekið
ákvarðanir á grundvelli áætlana um efnahagsbata sem ekki gekk eftir
og var ætlað að vega gegn efnahagsþenslu sem engin varð. Í því
ljósi virðist einsýnt að bankinn lækki vexti sína á ný.
Efnahagsbati ofmetinn
Þegar peningastefnunefnd Seðlabankans hóf vaxtahækkunarferlið á
grundvelli áætlana um kröftugan efnahagsbata gagnrýndu Samtök
atvinnulífsins þessar ákvarðanir og töldu efnahagsbatann ofmetinn.
Þegar betur væri að gáð byggðist hann á tímabundnum aðgerðum
stjórnvalda til að örva einkaneyslu og einungis fjórðung
hagvaxtarins mætti rekja til atvinnuvegafjárfestinga sem væru í
algjöru lágmarki. Einkaneyslan myndi því dragast saman á ný þegar
hinum tímabundu aðgerðum lyki.
Þegar Seðlabankinn hækkaði vexti síðast, í nóvember 2012, gagnrýndu Samtök atvinnulífsins þessa ákvörðun á þeim grundvelli að hún kæmi illa við skuldsett fyrirtæki sem sæju fram á erfiðan vetur, lækkun á afurðaverði og erfiðleika á helstu viðskiptasvæðum Íslands.
Á undanförnum mánuðum hefur komið æ betur í ljós að varnaðarorð Samtaka atvinnulífsins áttu rétt á sér. Forsendur sem Seðlabankinn gaf sér um efnahagsbata á árinu 2012 og 2013 hafa ekki staðist og efnahagsbatinn orðið hægari en áætlað var eins og sjá má í meðfylgjandi töflu.
Væntingar um fjárfestingar brugðust
Fjárfestingar atvinnulífsins drógust saman árið 2012 ef
kaup á flugvélum og skipum eru undanskilin og horfur eru á enn
frekari samdrætti í fjárfestingu í ár. Ef frá er talin mikill
vöxtur í ferðaþjónustu þá gefa áætlanir og spár Hagstofunnar
til kynna stöðnun í efnahagslífinu.
Vöxtur í greiðslukortaveltu heimilanna hefur farið stöðugt minnkandi undanfarið ár. Á fyrstu þremur mánuðum ársins voru útgjöld heimilanna innanlands óbreytt að raungildi á þennan mælikvarða sem bendir til þess að að vöxtur einkaneyslu hafi stöðvast og þar með hagvöxtur þar sem einkaneysla er stærsti þáttur þjóðarútgjaldanna.
Verðstöðugleiki innan seilingar?
Undanfarna mánuði hefur gengi krónunnar styrkst nokkuð og
komið fram í minni verðbólgu en ella. Verðbólgan síðustu 12 mánuði
gæti orðið um 3% við næstu mælingu vísitölu neysluverðs og
verðbólgumarkmið Seðlabankans verið innan seilingar á þessu ári ef
gengi krónunnar gefur ekki eftir á ný. Svo lág verðbólga felur í
sér að raunstýrivextir verða um eða yfir 3% samanborið við neikvæða
raunstýrivexti í flestum viðskiptaríkjum Íslands.
Auk hóflegrar verðbólgu hefur Seðlabankinn stöðugt gengi krónunnar að markmiði sem er lykilatriði í baráttunni við verðbólguna. Bankinn hefur beitt kaupum og sölu á gjaldeyri á undanförnum mánuðum sem skilað hafa árangri. Aðgerðir bankans á gjaldeyrismarkaði virðast þannig áhrifaríkara og skjótvirkara tæki en vaxtabreytingar til að hafa áhrif á gengi krónunnar og hafa ekki þau hliðaráhrif að drepa atvinnulífið í dróma eins og háir vextir.
Vextir lækki
Horfur í efnahags- og verðlagsmálum eru aðrar og lakari
en vaxtahækkunarferli undanfarinna misseri byggði á. Samtök
atvinnulífsins telja því fullt tilefni til þess að stýrivextir
Seðlabankans verði lækkaðir verulega á næstunni og atvinnulífið
þannig hvatt til fjárfestinga, sem brýna nauðsyn ber til í ljósi
þess að þær eru að líkindum minni en sem nemur endurnýjunarþörf
atvinnulífsins. Við slíkt ástand verður ekki unað.