Varasamur vítahringur

Almenn sátt er í samfélaginu um að styðja við þá sem minna hafa milli handanna og eru hjálparþurfi. Velferðarkerfi okkar er í grunninn byggt upp til að aðstoða þann hóp og tilgangur bóta að veita þeim öryggisnet.

Tillögur hafa borist úr ýmsum áttum um hækkun atvinnuleysisbóta og munu slíkar tillögur eflaust verða enn meira áberandi í haust, þegar skammtímaúrræði ríkisstjórnarinnar taka enda og efnahagslægðin dýpkar enn yfir landinu. Hugmyndir um hækkun bótanna er þó nauðsynlegt að skoða í samhengi við aðrar stærðir og með tilliti til þess hver langtímaáhrifin gætu orðið fyrir ríkissjóð og samfélagið allt.


Markmið laga um atvinnuleysistryggingar er að tryggja launafólki eða sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð meðan þeir leita nýrrar vinnu. Gæta þarf jafnvægis þannig að aðstoðin fleyti atvinnulausum í gegnum tímabil atvinnuleitar, án þess að verulegar fjárhagsáhyggjur séu til staðar, en hafi þó ekki letjandi áhrif á atvinnuleit.

Fjöldi rannsókna hefur sýnt að háar bætur í samhengi við laun á vinnumarkaði dragi úr hvata til atvinnuleitar og hafi þannig áhrif til aukins atvinnuleysis með tilheyrandi útgjöldum úr sameiginlegum sjóðum. Einnig hefur verið sýnt fram á að það sé samband milli lengdar bótatímabils og lengdar tímabils atvinnuleysis.

Það er því ekki einungis undir atvinnurekendum komið að skapa störf heldur þarf að vera nægur hvati til staðar fyrir fólk í atvinnuleit til að ganga í þau störf sem í boði eru. Nýleg dæmi innanlands benda til vandamála þessu tengdu, en á tilteknum ferðamannastöðum í júlí reyndist þrautin þyngri að fá fólk í vinnu þrátt fyrir mikið atvinnuleysi á svæðinu.

Atvinnuleysisbætur eru nú þegar háar hérlendis. Ef horft er til tekjulægri einstaklinga (með 67% af meðallaunum) þá er munur á tekjum fyrir og eftir atvinnumissi einn sá minnsti hér á landi borið saman við önnur OECD ríki. Þetta gildir hvort sem horft er til tveggja mánaða eftir atvinnumissi eða tveggja ára.

Hér á landi eru einnig greidd há laun. Sé horft til þeirra tekjulægri, hvort sem um er að ræða hjón eða einstaklinga með eða án barna eru Íslendingar í öllum tilfellum í efsta fjórðungi ríkja OECD þegar kemur að kaupmáttarleiðréttum ráðstöfunartekjum. Með öðrum orðum eru örfá ríki í heiminum sem státa af hærri ráðstöfunartekjum borgaranna en Ísland, jafnvel þó tekið sé sérstakt tillit til þeirra tekjulægri og kaupmáttar.

Svo virðist sem náttúrulegt atvinnuleysi hafi aukist hérlendis á undanförnum árum sökum grundvallarbreytinga á uppbyggingu vinnumarkaðarins. Því má eiga von á að jafnvægisatvinnuleysi hér á landi aukist frekar en minnki. Sé ætlunin að hækka bætur enn frekar eða lengja bótatímabil mun atvinnulífið þurfa að standa undir þeim kostnaði í gegnum hærri álögur. Hátt tryggingagjald er nú þegar áhyggjuefni hjá atvinnurekendum þvert á greinar. Frekari hækkun gjaldsins væri til þess fallin að hamla fjölgun starfa, sem vinnur gegn markmiðinu um minna atvinnuleysi.

Óábyrg stefna hefur afleiðingar

Skortur á langtímaábyrgð er eitt stærsta vandamál lýðræðisríkja. Oft eru takmarkaðar greiningar gerðar á efnahagslegum afleiðingum stefna sem geta haft veruleg áhrif á allt efnahagslíf þjóðar um ókomna tíð. Hinu fullkomna lánshæfismati þýska ríkisins steðjar ógn af slíkri stefnu, en lífeyrisskuldbindingar þar í landi eru að nær öllu leyti ófjármagnaðar. Núvirði ófjármagnaðra skuldbindinga Bandaríkjanna vegna velferðarkerfa þeirra hleypur á tugum ef ekki hundruðum billjóna dollara. Þetta eru risavaxin vandamál og engar góðar lausnir eru í sjónmáli.

Það er óábyrgt að kalla eftir nýjum loforðum án þess að gerð sé grein fyrir afleiðingum þeirra og kostnaði fyrir skattgreiðendur. Enn óábyrgara er fyrir stjórnmálamenn að láta undan slíku ákalli án þess að ganga úr skugga um að hægt sé að fjármagna loforðin á sjálfbæran hátt. Tekjur ríkissjóðs eru takmarkaðar. Síaukin skattheimta leiðir til stöðnunar í hagkerfinu sem skerðir getu hins opinbera til að standa undir velferðarsamfélaginu til lengdar. Það er varasamur vítahringur.

Anna Hrefna Ingimundardóttir er forstöðumaður efnahagssviðs SA. Greinin birtist fyrst í Markaðnum, 12. ágúst 2020