Varað við verndarstefnu innan ESB

Ernest-Antoine Seillière forseti UNICE, Evrópusamtaka atvinnulífsins, ávarpaði leiðtogafund ESB á dögunum. Í erindi sínu varaði Seillière við tilhneigingu til einhvers konar verndarstefnu sem orðið hefur vart innan sambandsins nýverið, þar sem tilteknar ríkisstjórnir hafa beitt sér gegn samruna fyrirtækja yfir landamæri, einkum á sviði orkumála. Sagði Seillière þetta hættulega tilhneigingu og hvatti leiðtogaráðið til að stuðla að aukinni samkeppni innan ESB á sviðum orkumála og í þjónustuviðskiptum. Seillière sagði evrópskt atvinnulíf ekki sátt við þá málamiðlun sem gerð var í Evrópuþinginu nýlega um efni þjónustutilskipunar ESB og sagði brýnt að stuðla að raunverulegu frelsi í þjónustuviðskipum sem myndi skila auknum hagvexti og fleiri störfum. Þá hvatti Seillière leiðtoga aðildarríkja ESB til að efla samkeppnishæfni ríkjanna með því að auka sveigjanleika á vinnumarkaði, draga úr reglubyrði fyrirtækja, efla rannsóknir og þróun o.fl. Loks lagði hann mikla áherslu á mikilvægi umbóta á stjórnkerfi ESB og sagði öflugt og skilvirkt ESB mikilvægt fyrir samkeppnishæfni evrópskra fyrirtækja á tímum hnattvæðingar.

Chirac yfirgaf salinn

Mikla athygli vakti að Jacques Chirac forseti Frakklands yfirgaf salinn þegar Seillière hóf að flytja ræðu sína á ensku, en Seillière er fyrrverandi formaður MEDEF, frönsku samtaka atvinnulífsins. Seillière tók fram í upphafi ræðu sinnar að UNICE væru samtök 20 milljón fyrirtækja frá 39 samtökum í 33 löndum, en Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins eru meðal aðildarsamtaka UNICE.

Sjá ræðu Seillière á leiðtogafundi ESB.