Útstreymi gróðurhúsalofttegunda er minna á Íslandi en í ESB
Nýlega kom út hjá Umhverfisstofnun Evrópu skýrsla þar sem fjallað er um útstreymi gróðurhúsalofttegunda í ríkjum Evrópu árið 2004 og borið saman hve mikið útstreymi er á hvern íbúa og á einingu landsframleiðslu. Einnig er fjallað um það hvernig ríkin sem tóku á sig skuldbindingar samkvæmt Kyoto-bókuninni við loftslagssamning Sameinuðu þjóðanna standa að vígi við að uppfylla þessar skuldbindingar.
Hér að neðan má sjá útstreymi á mann í Evrópusambandslöndunum 25 og meðaltal þeirra allra og eins meðaltal þeirra 15 ESB ríkja sem tóku á sig sameiginlegar skuldbindingar skv. Kyoto (tölurnar eru í tonnum heildarútstreymis á íbúa árið 2004 og súlurnar eiga við útstreymi 1990 (ljósar) og 2004 (dökkar)).
Smellið til að sjá stærri mynd
Eins og sjá má er meðalútstreymi á hvern íbúa í ESB 11,0 tonn eða 10,9 tonn eftir því hvort miðað er við 15 eða 25 ríki. Nokkur samdráttur hefur orðið frá árinu 1990.
Í skýrslunni er einnig að finna sambærilegar tölur fyrir ríki á Evrópska efnahagssvæðinu og ríki sem rætt hefur verið við um inngöngu í ESB (sömu skýringar eiga við um myndina hér að neðan og þá að ofan):
Smellið til að sjá stærri mynd
Útstreymið hér undir ESB-meðaltali
Eins og sjá má er almennt útstreymi á Íslandi um 10,7 tonn á íbúa árið 2004 og hefur minnkað um 17% frá árinu 1990. Útstreymi á Íslandi er á þessu ári minna en að meðaltali í ESB hvort sem horft er til 15 eða 25 aðildarríkja og hefur dregist meira saman en þar.
Í skýrslunni kemur einnig fram að Ísland stendur vel að vígi gagnvart Kyoto bókuninni og að útstreymið 2004 er 12% undir því markmiði sem sett er að meðaltali fyrir tímabilið 2008 til 2012, en ESB ríkin 15 eru 8% yfir sambærilegu markmiði og eiga því mun lengra í land til að ná takmarkinu en Ísland. Jafnframt er í skýrslunni að finna samanburð á útstreymi á hverja einingu þjóðarframleiðslu en einnig á þann mælikvarða stendur Ísland vel að vígi.
Frekari umfjöllun um útstreymi gróðurhúsalofttegunda á vef SA er að finna hér. Áherslur Samtaka atvinnulífsins í loftslagsmálum eru hér. Skýrslu Umhverfisstofnunar Evrópu má finna á vef stofnunarinnar hér.