Útflutningshagsmunir Íslands séu tryggðir í nýjum fríverslunarsamningi
Forystufólk úr atvinnulífinu fundaði í gær með Guðlaugi Þór Þórðarssyni utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra um fríverslunarviðræður Íslands, Noregs og Liechtenstein við Bretland. Samtök atvinnulífsins boðuðu til umræðnanna að ósk Guðlaugs Þórs. Brýnt er að samkomulag náist um nýjan fríverslunarsamning áður en Bretland hverfur úr EES samningnum, sem verður að óbreyttu þann 31. janúar næstkomandi.
„Samtök atvinnulífsins fagna því frumkvæði utanríkisráðherra að efna til virks samtals við atvinnulífið um hvernig hag íslenskra fyrirtækja sé best borgið í nýjum fríverslunarsamningi við Breta í kjölfar Brexit. Samstarfið hefur verið árangursríkt og verið byggt á þeirri forsendu að tryggja útflutningshagsmuni Íslands með sem bestum hætti. Ljóst er að í samningnum er feiknarlega mikið í húfi fyrir íslenskt atvinnulíf og því til mikils að vinna að hafa fengið hagaðila snemma að borðinu nú þegar fríverslunarviðræður eru að bresta á,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, en samráð atvinnulífsins og stjórnvalda hefur staðið yfir síðan stuttu eftir þjóðaratkvæðagreiðslu Breta um útgöngu úr ESB í júní 2016.
Fyrir hönd atvinnulífsins sátu fundinn Helga Árnadóttir og Halldór Benjamín Þorbergsson hjá Samtökum atvinnulífsins, Árni Sigurjónsson og Sigríður Mogensen hjá Samtökum iðnaðarins, Ingibjörg Ólafsdóttir og Jóhannes Þór Skúlason hjá Samtökum ferðaþjónustunnar, Ægir Páll Friðbertsson og Heiðrún Lind Marteinsdóttir hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, Guðrún Jóhannesdóttir og Andrés Magnússon hjá Samtökum verslunar og þjónustu, Katrín Júlíusdóttir hjá Samtökum fjármálafyrirtækja, og Páll Erland hjá Samorku. Fyrir hönd utanríkisráðuneytisins sátu fundinn, auk Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, Sturla Sigurjónsson, Þórir Ibsen, Borgar Þór Einarsson og Ögmundur Hrafn Magnússon