Úrvinnslugjald lagt á umbúðir

Alþingi hefur samþykkt breytingar á lögum um úrvinnslugjald sem fela í sér að frá áramótum verður lagt úrvinnslugjald á allar umbúðir úr pappa, pappír og plasti sem fara á markað. Innflytjendur verða því að gefa upp magn flutnings- og söluumbúða utan um vöru sem flutt er til landsins. Jafnframt verða innlendir umbúðaframleiðendur að gefa upp magn seldra umbúða. Álagning úrvinnslugjalds á pappa, pappír og plast er liður í að uppfylla skyldur sem Íslendingar hafa gengist undir með þátttöku í Evrópska efnahagssvæðinu og felast í að ná ákveðnum árangri í endurvinnslu.

Úrvinnslugjald verður innheimt í tolli af innfluttum umbúðum og hjá skattstjórum við sölu á innlendri framleiðslu. Reiknað er með að árlega verði innheimtar 320-340 milljónir króna. Gjaldið á að standa undir úrvinnslu umbúða (söfnun, flokkun og flutningi sem og endurnýtingu eða endurvinnslu) og því getur sparast einhver kostnaður hjá fyrirtækjum sem flokka umbúðaúrgang en þurfa nú að greiða fyrir gámaleigu, flutning og förgun. Áhrif gjaldsins á verðlag eiga að vera óveruleg.

Nánari upplýsingar má fá á vef Úrvinnslusjóðs.