Uppstokkunar er þörf

Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar eru lagðar vörður sem marka eiga veginn fram á við. Sérstakt fagnaðarefni er skýr stefna stjórnarinnar um stöðvun skuldasöfnunar ríkissjóðs. Í raun er það afrek út af fyrir sig. Hagvaxtarspár og forgangsröðun innan hvers málaflokks er síðan það sem fókus beinist að og skiptar skoðanir eru um.

Í ljósi þess ástands sem nú er kemur ekki á óvart að fólk er einhuga um að tryggja þurfi sérstaklega starfsemi Landspítala háskólasjúkrahúss, lögreglunnar og grunnþjónustu menntakerfisins. Hinu er síðan forvitnilegt að fylgjast með hvaða skref hver ríkisstjórn tekur umfram það sem menn kalla nauðsynlegt.

Hvenær þýða ákvarðanir dagsins í dag fjölgun sóknarfæra til framtíðar? Kunna vandamál dagsins að verða auðveldari viðfangs ef við opnum frekar á þróttmikið rannsóknar- og nýsköpunarstarf; að þannig verðum við sterkari sem þjóð og skilum okkur betur áfram í því efnahagsástandi sem nú er? Getum við sammælst um að ýta undir þau svið sem tryggja aukna verðmætasköpun og að ná því eftirsóknaverða takmarki að vera samfélag sem byggir á þekkingu, rannsóknum og nýsköpun?

Forgangsröðun Finna
Í gegnum tíðina hefur verið rætt að horfa eigi til Finna og hvernig þeir fóru í gegnum sína kreppu í byrjun 10. áratugar síðustu aldar. Finnar forgangsröðuðu í þágu menntunar, vísinda og tækni. Þannig voru þeir sannfærðir um að þeir kæmust fyrr út úr erfiðleikunum og gætu byggt upp sterkar grunnstoðir til framtíðar og fjölbreytni í atvinnulífi í gegnum sprota- og nýsköpunarfyrirtæki. Hér hefur þetta lengi verið rætt og aðeins gert en af veikum mætti.

Þegar ríkisstjórn stendur frammi fyrir aðhaldsaðgerðum má spyrja hvort það sé ekki gamaldags aðferð að gæta almennt jöfnuðar á milli ráðuneyta í stað þess að meta hvert málaefnasvið sjálfstætt og sýna þannig fram á raunverulega forgangsröðun fjármuna. Þó það kunni að leiða til þess að tveir eða þrír ráðherrar þurfi að skera hressilega niður fjárlagaliði hjá sér. Hið áratuga langa tog og varðstaða á milli ráðuneyta og undirstofnana þeirra um fjármuni stendur í vegi fyrir að hver ríkisstjórn geti boðið upp á skynsamlega forgangsröðun þótt góður vilji sé til staðar.

Nýsköpun, rannsóknir og vísindi í fjárlagafrumvarpi
Fjárlagafrumvarp næsta árs á sviði rannsókna og nýsköpunar eru vonbrigði. Uppbyggingu vísinda- og rannsóknasjóða er slegið á frest og dregið er úr krafti þess skattaafsláttar sem verið hefur hvati fyrir fyrirtækin til að fjárfesta sérstaklega í nýsköpunar- og þróunarverkefnum. Er það ekki síst áhyggjuefni þegar erlend fjárfesting er í sögulegu lágmarki og haft er í huga hversu gjaldeyrishöftin eru íþyngjandi mikilvægri sprotastarfsemi í samfélaginu. Næstu misserin og árin verður að tryggja þann grundvöll hagvaxtar sem byggist á nýsköpun og verðmætasköpun fyrirtækja, hvort sem er á sviði tækni, iðnaðar, sjávarútvegs eða greina sem eiga rót í hug- og félagsvísindum.

Þótt þessi birtingarmynd fjárlagafrumvarpsins séu ákveðin vonbrigði er mikilvægt að horfa til annarra þátta þess er stuðlað geta að öflugri vexti vísinda, rannsókna og þróunar. Undirtón fjárlagafrumvarpsins um endurskoðun stjórnkerfis, bætta skilvirkni og aukið hagræði verður að virkja þegar horft er til vísinda og nýsköpunar.

Hvatning til endurskoðunar
Í tveimur skýrslum innlendra og erlendra sérfræðinga um hvernig best væri í kjölfar hrunsins að byggja upp háskóla-, nýsköpunar- og vísindastarf til framtíðar kom fram skýr hvatning til uppstokkunar á stofnanakerfinu, sjóðunum og sameiningar háskóla. Það hefur beðið of lengi en tækifærin eru sannanlega enn til staðar - og þau verður að nýta. Umræða um sameiningu háskóla, jafnvel þannig að eftir standi tveir eða þrír háskólar er erfið en hana þarf að taka; niðurlagning eða sameining rannsóknastofnana þvert á atvinnuvegi kann að vera sársaukafull en þá umræðu þarf líka að taka. Rannsókna- og sjóðakerfi margra ráðuneyta krefst nýrrar nálgunar en hana þarf að fara í. Hinir ýmsu hreppstjórar verða að sýna þessu skilning og veita þessum mikilvægu skrefum brautargengi.

Samtök atvinnulífsins telja stærstan hluta rannsóknarsjóðakerfisins of niðurhólfaðan og stofnanamiðaðan. Kerfið stuðlar ekki að hámarksárangri þar sem besta hugmyndin verður ofan á hverju sinni. Þegar fjármagn er hlutfallslega lítið þarf kerfi sem tryggir að það fjármagn nýtist sem best. Þess vegna telja Samtök atvinnulífsins brýnt að farið verði vel yfir þær hugmyndir sem settar hafa verið fram til uppstokkunar á rannsóknar- og nýsköpunarkerfinu. Leiðarljósið er samkeppni, skýrar gæðakröfur og tengsl við atvinnulífið. Á þessu sviði sem öðru eru samtökin reiðubúin í samstarf.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, forstöðumaður mennta- og nýsköpunarsviðs SA.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 14. október 2013

Tengt efni:

Viðtal við Þorgerði í VB-Sjónvarpi

Viðtal við Þorgerði í Bítinu á Bylgjunni