Upplýsingar um umhverfismál - fyrirtæki gæti hagsmuna sinna

Hið nýja frumvarp um upplýsingarétt um umhverfismál sem búast má við að verði að lögum í vetur er samið til innleiðingar á tilskipun 2003/4/EB en hana átti að innleiða fyrir 14. febrúar sl. Ný lög munu koma í stað eldri laga um upplýsingamiðlun og aðgang að upplýsingum um umhverfismál sem eru nr. 21/1993.

Meginbreytingar sem í frumvarpinu felast:

Í fyrsta lagi er skilgreiningin á umhverfi er víkkuð verulega og nær til a) ástands andrúmslofts, lofthjúps, vatns, jarðvegs, lands o.fl, b) þátta á borð við efni, orku, hávaða, geislun, úrgang og losun þeirra út í umhverfið, c) ráðstafana í tengslum við stefnumótun, áætlanir o.fl. auk kostnaðar- og hagkvæmnigreiningar sem áhrif geta haft á þætti í a) og b) lið og d) ástand er varðar heilbrigði manna og öryggi þ.m.t. mengun matvæla o.fl. sem geta orðið fyrir áhrifum af því sem um getur í lið a) og b).

Í öðru lagi er í frumvarpinu ný og mjög víð skilgreining á því hvað teljist stjórnvald en það hugtak nær til a) stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og einkaaðila sem falið hefur verið að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna, b) lögaðila sem sem hefur verið falið opinbert hlutverk eða veitir almenningi opinbera þjónustu sem varðar umhverfið og c) lögaðila sem gegna opinberu hlutverki eða veita opinbera þjónustu sem varðar umhverfið og lúta stjórn þeirra stjórnvalda sem falla undir lið a).

Í þriðja lagi er ekki unnt að takmarka aðgang að upplýsingum um mengandi losun út í umhverfið.

Aðgangur að viðkvæmum upplýsingum um viðskiptahagsmuni?

Í grófum dráttum má segja að allar upplýsingar sem hið opinbera aflar um umhverfið geti verið aðgengilegar almenningi eftir að þessi lög hafa tekið gildi. Ekki þarf að sýna fram á að sá sem óskar upplýsinganna hafi einhverra hagsmuna að gæta. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annara lögaðila. Hins vegar er stjórnvaldi ekki skylt að leita álits þess er upplýsingarnar varða hvort um sé að ræða mikilvægar fjárhags- eða viðskiptaupplýsingar er leynt skuli fara.  Ef stjórnvald hins vegar leitar slíks álits er viðkomandi skylt að svara erindinu innan sjö daga.

Þeir opinberu aðilar sem afla kerfisbundið upplýsinga frá fyrirtækjum eru til dæmis skoðunarstofur, eftirlitsaðilar s.s. heilbrigðiseftirlit, Umhverfisstofnun, Vinnueftirlit og allir þeir aðilar sem sækja þarf um leyfi til. Oft og tíðum fá þessir aðilar miklu víðtækari upplýsingar en þörf krefur vegna hins opinbera hlutverks eða eftirlits vegna þess að fyrirtækin hafa viljað halda góðu sambandi við þessa aðila og treysta því að þagnarskylduákvæði sem um marga þessa aðila gildir haldi. Það er til dæmis sérstaklega tekið fram í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir að aðilar sem starfa samkvæmt þeim séu bundnir þagnarskyldu um atriði er varðar framleiðslu- og verslunarleynd. Ákvæði í hinu nýja frumvarpi ganga ekki framar þessum þagnarskylduákvæðum en búast má við að tilhneigingin verði sú að veita frekar meiri upplýsingar en minni. Og auk þess er engin krafa um það að aflað verði samþykkis þess sem upplýsingarnar veitti áður en þær verða gerðar opinberar almenningi.

Ráðstafanir til íhugunar fyrir atvinnulíf og fyrir fyrirtæki:

Í fyrsta lagi að veita ekki hinu opinbera ekki frekari upplýsingar en krafist er og ganga úr skugga um að opinberir aðilar eigi skýran rétt á upplýsingunum samkvæmt þeim lögum sem þeir starfa eftir. Mikilvægt er að átta sig á því að það frumvarp sem nú liggur fyrir Alþingi skapar stjórnvöldum engan nýjan rétt til að krefja fyrirtækin um upplýsingar.

Í öðru lagi er nauðsynlegt að taka það sérstaklega fram hvaða upplýsingar sem látnar eru af hendi skuli bundnar trúnaði og innihaldi atriði er varða framleiðslu- og viðskiptaleynd.

Í þriðja lagi er getur verið rétt að óska eftir því við stjórnvald að fá vitneskju um það fyrirfram ef til stendur að veita almenningi aðgang að tilteknum upplýsingum sem að hluta geti innhaldið atriði er varðar framleiðslu- eða viðskiptaleynd.

Með því að móta starfs- eða vinnureglur á þessu sviði geta fyrirtækin komið í veg fyrir að upplýsingar sem eiga að vera bundnar trúnaði verði opinberar fyrir tilviljun eða misskilning. Rétt er að hafa í huga að það verður trúlega tilhneiging stjórnvalda að veita rúman aðgang að upplýsingum og þó að fyrirtækin telji einstaka hluti varða viðskipta- eða framleiðsluleynd er ekki víst að stjórnvaldið sé sammála því mati.