Ungt fólk og atvinnulífið - nýr vettvangur innan Samtaka atvinnulífsins
Ungt fólk og atvinnulífið, nýr vettvangur innan Samtaka atvinnulífsins, var formlega stofnaður í dag. Hópinn skipa átta ungmenni á aldrinum 16-25 ára. Hugmyndin með að skipa í slíkan hóp er að auka fjölbreytileika og stuðla að því að fjölbreyttari sjónarmið komi að því að móta áherslur í starfi. SA skipar fjóra fulltrúa í ráðið en auk þess skipar Global Compact á Íslandi einn fulltrúa, Ungar athafnakonur einn fulltrúa og Félag framhaldsskólanema tvo.
Auglýst var eftir fulltrúum í starfið og valið úr stórum hópi frambærilegra og metnaðarfullra ungmenna. Hjá SA var horft til þess við val fulltrúa að þeir endurspegluðu aldursbil, kynjahlutföll og búsetu. Auk þess var horft til þess að fulltrúarnir væru á ólíkum stað í námi og starfi.
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, segir stofnun vettvangsins afar jákvætt skref. Vilji SA standi til þess í öllum tilvikum að stuðla að auknu jafnrétti og fjölbreytileika, það eigi við um innra starf samtakanna og málefnavinnu þeirra.
„Það er óumdeilt að ákvarðanir eru farsælli ef einstaklingar með ólíkan bakgrunn og eiginleika fá sæti við borðið. Hið sama á við um aðra vinnu sem snýr að mótun á áherslum, hugmyndafræði og stefnu í ólíkum málaflokkum. Við trúum því að gæðin aukist ef að vinnunni kemur fjölbreyttur hópur með ólíka sérfræðiþekkingu, reynslu og bakgrunn. Stofnun ungmennaráðsins er liður í því,“ segir Halldór.
Nú í nóvember hafa Samtök atvinnulífsins lagt áherslu á jafnréttismál og fjölbreytileika í starfi sínu. Auk stofnunar ungmennaráðsins verða Hvatningaverðlaun jafnréttismála veitt, umræða um sveigjanleg starfslok sett á dagskrá og rætt verður um mikilvægi þess að einstaklingar með skerta starfsgetu fái verkefni við hæfi í atvinnulífinu.
Hlutverk Ungs fólks og atvinnulífsins
Hópnum er ætlað að vera ráðgefandi við starfsmenn og stjórn SA í málefnavinnu, þróunarverkefnum, við gerð umsagna og í kynningarstarfi. Þá er hópnum ætlað að veita endurgjöf á áherslur í málefnastarfi ólíkra málaflokka sem byggja á grundvallarskyldum og tilgangi SA sem skv. samþykktum er m.a. þessi:
- Að vera heildarsamtök íslenskra atvinnurekenda og málsvari þeirra í almennum hagsmunamálum atvinnulífsins.
- Að hafa mótandi áhrif á starfsumhverfi atvinnulífsins og stuðla að samkeppnishæfum og arðsömum atvinnurekstri.
- Að annast samskipti við stéttarfélög og gera kjarasamninga fyrir hönd aðildarfyrirtækja sem falið hafa samtökunum umboð til þess. Jafnframt að leiðbeina aðildarfyrirtækjum um framkvæmd kjarasamninga og önnur vinnumarkaðsmál.
- Að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi atvinnurekenda að sameiginlegum hagsmunamálum.
Í hópnum eiga sæti:
- Andrea Gunnarsdóttir
- Bjarklind Björk Gunnarsdóttir
- Júlíus Viggó Ólafsson
- Hermann Nökkvi Gunnarsson
- Jakob H. P. Burgel Ingvarsson
- Birkir Guðsteinsson
- Sylvía Martinsdóttir
- Sæunn Emilia Tómasdóttir