Undrahraði
Bólusetningar hófust í Bretlandi í síðustu viku og í Bandaríkjunum í þessari viku. Þær munu væntanlega hefjast á Íslandi og í Evrópusambandinu á næstu vikum. Með því er met slegið á þessu sviði. Það sem áður tók að minnsta kosti fjögur ár tekur nú innan við eitt ár. Með því að ná að flýta þessu svo mikið, og ef allt gengur að óskum, er verið að bjarga heilsu tuga eða hundraða milljóna manna og lífum hundraða þúsunda ef ekki milljóna.
Þetta er ekki bara sigur fyrir vísindi. Þetta er líka staðfesting á því hverju er hægt að áorka með öflugu samstarfi atvinnulífs og hins opinbera. Af þeim lyfjafyrirtækjum sem Ísland hefur verið í viðræðum við eru Astra Zeneca, Janssen og Moderna öll þátttakendur í undrahraðasamstarfinu við bandarísk stjórnvöld (e. Operation Warp Speed). Pfizer ákvað að taka ekki þátt, þar sem það taldi það veita sér sveigjanleika sem myndi spara því tíma. Verkefnið hefur úr að spila jafnvirði um 2.300 milljarða króna.
Það eina sem ég og þú þurfum að gera er að mæta til bólusetningar þegar við fáum boð í hana. Með því erum við ekki bara að vernda eigin heilsu, heldur einnig annarra. Því fleiri sem verða bólusett því erfiðara verður fyrir veiruna að halda áfram að breiða sig út um samfélagið. Sum munu ekki geta fengið bólusetningu, til dæmis vegna bráðaofnæmis. Með því að bólusetja okkur minnkum við einnig líkur á að við smitum þau.
Blandað hagkerfi og þátttaka í bólusetningum bjargar mannslífum.
Davíð Þorláksson er forstöðumaður samkeppnishæfnisviðs Samtaka atvinnulífsins. Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.