Undirbúningsnám fyrir háskólanám við HR stytt í eitt ár

Frá og með næsta hausti geta nemendur í frumgreinanámi við Háskólann í Reykjavík lokið undirbúningi fyrir háskólanám á einu ári. Samhliða styttingu námsins hefur skipulagi þess verið breytt. Nemendur velja braut sem gerir þeim kleift að einbeita sér að undirbúningi fyrir það háskólanám sem þeir hafa áhuga á að fara í að loknu frumgreinanáminu.

Frumgreinanámið við HR er það elsta sinnar tegundar hér á landi. Það var stofnsett í Tækniskóla Íslands árið 1964. Undanfarin 12 ár hafa flestir nemendur tekið námið á þremur önnum en nú hefur það verið stytt í eitt ár.Námið hefur verið vinsæll kostur þeirra sem vilja brúa bilið milli iðnmenntunar og reynslu úr atvinnulífinu og háskólanáms. Á undanförnum árum hefur einnig aukist aðsókn nemenda sem vantar tiltekinn undirbúning í stærðfræði og raungreinum til að hefja nám í tæknigreinum.

Við skipulagsbreytingarnar var tekið mið af aðgangsviðmiðum akademískra deilda Háskólans í Reykjavík og aðalnámskrá framhaldsskólanna.

Frekari upplýsingar um frumgreinanám við Háskólann í Reykjavík má finna á vef HR