Umræða um styttingu vinnutíma á villigötum

Á dögunum var haldið málþing um styttingu vinnuvikunnar á vegum BSRB og Reykjavíkurborgar. Í erindi sem sem Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, hélt á málþinginu sagði hann frumvarpið, sem lagt var fram af þingmönnum Pírata, Samfylkingarinnar og Vinstri grænum, vega að rótum íslenska kjarasamningalíkansins og vera atlögu að samningsfrelsinu. Fjallað er um málið í Viðskiptablaðinu 19. maí þar sem er rætt við Hannes.

Í samtali við Viðskiptablaðið segir Hannes alla umræðu um styttingu vinnutíma á Íslandi byggjast á grafalvarlegum misskilningi. „Íslendingar skilgreini hugtakið „vinnutíma“ öðruvísi en almennt gerist erlendis sem brengli allan samanburð og ýkir lengd vinnutíma hér á landi miðað við aðrar þjóðir. Hér á landi ríkir sá rótgróni misskilningur að dagvinnuvinnutími á viku sé að hámarki 40 stundir. Þetta er ekki rétt, því dagvinnutíminn er að hámarki 37 stundir og 5 mínútur.

Samkvæmt alþjóðlegri skilgreiningu er vinnutími sá tími sem starfsmaður er við störf og til taks fyrir vinnuveitandann. Umsamin kaffihlé, yfirleitt 35 mínútur á dag, reiknast þannig ekki til vinnutíma,“ segir Hannes. Hann segir það jafnframt mikinn og rótgróinn misskilning að vinnutími á Íslandi sé langur og það stafi af löngum dagvinnutíma í kjarasamningum.

Staðreyndirnar tali þó öðru máli. „Í evrópskum samanburði er umsaminn ársvinnutími stystur á Íslandi, að Frakklandi undanskildu.“ Neðanjarðarlaunakerfi hins opinbera Hannes segir mikið framboð af alls kyns villandi talnaefni um vinnutíma á Íslandi. Ástæðan sé sú að stór hluti launagreiðslna hér á landi sé í formi yfirvinnugreiðslna.

„Umfangsmiklar yfirvinnugreiðslur, þótt vikuleg vinnuskylda hafi ekki verið innt af hendi í dagvinnu, valdi því að lengd vinnutímans er stórlega ofmetin og liggur ástæðan í ósveigjanlegum ákvæðum kjarasamninga um vinnutíma. Svo ekki sé minnst á hin ósveigjanlegu og gjörsamlega úreltu lög um svokallaða 40 stunda vinnuviku, sem eru barn síns tíma og ætti að fella brott þegar í stað. Þá verður að nefna í þessu sambandi neðanjarðarlaunakerfi hins opinbera þar sem óunnin yfirvinna er greidd sem launauppbót.“

Ósveigjanlegir samningar
Hannes bendir jafnframt á að samanburður kjarasamninga á Íslandi og t.d. Norðurlöndum sýni bersýnilega hversu ósveigjanlegir íslensku kjarasamningarnir eru varðandi skipulag vinnutíma.

„Á Norðurlöndunum eru víða miklir möguleikar á því að jafna vinnustundir milli daga og vikna og gera vinnutímann upp á lengri tímabilum, t.d. mánuði eða jafnvel enn lengri tímabilum. Þannig er vinnustundafjölda umfram vinnuskyldu í einni viku t.d. mætt með færri vinnustundafjölda í einhverri annarri viku. Slíkur sveigjanleiki dregur mjög úr yfirvinnugreiðslum enda eru þær til dæmis aðeins 1% launagreiðslna í Danmörku en 15% á Íslandi. Staðreyndin er sú að umsaminn ársvinnutími á Íslandi er stystur í Evrópu, að Frakklandi undanskildu.“
undefined

Launakostnaður myndi hækka mikið
Í erindi sínu á fyrrnefndu málþingi sagði Hannes það misskilning að vinnutíma væri hægt að stytta með kjarasamningum eða lögum frá  Alþingi. Þannig hafi lögfesting laganna um 40 stunda vinnuviku árið 1972 haft óveruleg áhrif á heildarvinnutíma skv. vinnutímamælingum Kjararannsóknarnefndar á þeim tíma. Áhrif laganna hafi fyrst og fremst verið hækkun á launakostnaði atvinnulífsins um 18% miðað við óbreyttan vinnutíma. Hannes segir mikilvægt að minna á að þegar lögin tóku gildi, í ársbyrjun 1972, hafi verðbólgan verið 2% og landsmenn nýbúnir að jafna sig eftir síldarbrestinn í lok sjöunda áratugarins og gengishrun og verðbólgugusu í kjölfarið. Segir hann þennan lögfesta launakostnaðarskell hafa búið til nýtt verðbólgufóður sem birtist í því að verðbólgan hafi verið orðin 12% strax þá um sumarið, 20% ári síðar, 40% árið 1974 og yfir 50% árið 1975. Þessi vinnutímastytting markaði sem sagt upphaf og ýtti úr vör því sem síðar var kallaður verðbólguáratugurinn. Áhrif þess á lengd vinnutíma að stytta umsamda vinnuviku félagsmanna verslunarmannafélaga árið 2000 hafi verið á þann veg að ekki hafi orðið sjáanleg breyting á heildarvinnutíma af völdum styttingarinnar en hlutur yfirvinnutekna í heildarlaunum jókst og launakostnaður þar með.

Hannes vísar til þess að ef frumvarpið yrði að lögum myndi lögboðinn virkur vinnutími styttast úr 37 stundum í 32 og laun fyrir unna vinnustund hækka samstundis um 14%.

„Það er misskilningur að slík mið­stýrð vinnutímastytting hafi jákvæð áhrif – slík aðgerð myndi þvert á móti valda fullkomnu efnahagsöng­ þveiti. Launakostnaður atvinnulífsins myndi aukast mun meira því ólíklegt er að heildarvinnutími myndi styttast nokkuð við lögfestinguna. Greiddum yfirvinnustundum myndi því fjölga álíka mikið og dagvinnustundunum fækkaði. Ef það yrði raunin myndi launakostnaður atvinnulífsins aukast um 26-28% í einu vetfangi. Það myndi hafa mjög neikvæðar og afdrifaríkar afleiðingar á atvinnustig og atvinnuleysi, verðbólgu, vexti og gengi krónunnar og þar með neikvæð áhrif á afkomu heimilanna sem frumvarpsmenn telja sig ætla að hjálpa.“

Eykur ekki framleiðni
Hannes segir vinnutíma hafa styst hér á landi um 4 klukkustundir á viku á undanförnum tveimur áratugum og um 12-14 klukkustundir, sé horft til undangenginna fjögurra áratuga. „Þetta er mikil breyting og er til marks um bætt lífskjör þar sem svigrúm hefur skapast fyrir mun styttri vinnutíma en áður. Aukin framleiðni í atvinnulífinu hefur knúið þessa þróun áfram. Þessi stytting hefur átt sér stað jafnt og þétt. Því svigrúmi sem framleiðniaukning hefur skapað til bættra lífskjara hefur verið skipt milli beinnar kaupmáttaraukningar og styttri vinnutíma.“

Að lokum bætir hann því að það sé mikill misskilningur að miðstýrð stytting dagvinnutíma auki framleiðni. Framleiðni sé hins vegar hægt að auka með sveigjanlegri ákvæðum um vinnutíma í kjarasamningum þar sem fjölgun vinnustunda á einu tímabili er mætt með styttri vinnutíma á öðru.