Umhverfisverðlaun atvinnulífsins 2021 kunngjörð

Umhverfisverðlaun atvinnulífsins voru tilkynnt við hátíðlega athöfn á Umhverfisdegi atvinnulífsins í dag. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, tilkynnti verðlaunin. Umhverfisfyrirtæki ársins er Bláa lónið en framtak ársins á sviði umhverfismála eiga Aha.is.

Bláa lónið er Umhverfisfyrirtæki ársins 2021

Bláa lónið nýtir jarðsjó, gufu og koltvísýring sem fellur til við framleiðslu á grænni orku frá nærliggjandi jarðvarmaveri til að skapa verðmæti. Sjálfbærni er kjarni og uppspretta Bláa Lónsins. Fyrirtækið hefur að leiðarljósi að fullnýta auðlindastrauma úr iðrum jarðar í upplifun gesta þess sem og í framleiðslu á vörum. Allur rekstur Bláa Lónsins er samofinn fjölnýtingu dýrmætra auðlindastrauma sem er einstakt á heimsvísu. Bláa Lónið hefur ávallt unnið að því að draga úr sóun og lágmarka umhverfisspor sitt. Fyrirtækið hefur markað sér skýra stefnu í umhverfismálum með megináherslu á að auka sjálfbæra nýtingu auðlindanna, draga úr plastnotkun og koltvísýringslosun.

Bláa Lónið hefur kolefnisjafnað allan rekstur sinn síðan 2019 með ræktun þörunga og plöntun trjáa, m.t.t. eldsneytisnotkunar, orkunotkunar, rútuferða starfsfólks, meðhöndlun úrgangs og flugferða. Kolefnisbókhald fyrirtækisins er vaktað og plastspor þess kortlagt til að keyra áfram stöðugar umbætur í rekstri og draga úr áhrifum þess á umhverfið.

Fyrirtækið hefur frá upphafi átt farsælt samstarf við háskólasamfélagið á sviði rannsókna og þróunar og hefur hlutverki að gegna hvað varðar fræðslu um jarðvarmaauðlindina, fjölnýtingu hennar, vörur og starfsemi fyrirtækisins. Bláa Lónið hefur allt frá stofnun fyrirtækisins lagt ríka áherslu á rannsóknir á vistkerfi lónsins, sérstöðu þess og virkni þeirra náttúrulegu efna sem þar er að finna. Klínískar rannsóknir á lækningamætti lónsins á psoriasis hafa verið unnar um áratuga skeið.

Bláa Lónið hefur innleitt umhverfisstjórnunarkerfi og á þessu ári lokið vottunarferli gæða, umhverfis og öryggisstjórnunar, en fyrirtækið hefur haft vottanir tengdar starfseminni síðan það fékk Bláfánann árið 2003. Að auki hefur fyrirtækið innleitt Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og gefið út vandaða samfélagsskýrslu. Bláa Lónið hefur hlotið fjölda viðurkenninga bæði fyrir starfsemi sína og afurðir.

Aha.is á framtak ársins

Fyrirtækið á bak við umhverfisframtak ársins er Aha.is - netverslun með heimsendingarþjónustu. Kolefnisspor heimaksturs er ein stærsta umhverfisáskorun starfseminnar.

Frá 2015 hafa rafknúnir bílar verið notaðir og er nú allur bílafloti fyrirtækisins knúinn 100% rafmagni. Unnið er með heimsmarkmiðum sameinuðu þjóðanna og markvisst stuðlað að vistvænum innkaupum. Aha hefur unnið að athyglisverðum tilraunum með flutningar á vörum með drónum sem er grundvöllur tilnefningar fyrirtækisins til umhverfisframtaks ársins. Drónaverkefni Aha minnkar umferð og dregur úr svifryksmengun.

Hér er til mikils að vinna og hægt að draga enn meira úr umhverfisáhrifum starfseminnar og ekki síst verið að leita óhefðbundið að nýjum lausnum í umhverfismálum og hugsað út fyrir kassann.

Í valnefnd Umhverfisverðlauna atvinnulífsins sátu Sigurður M. Harðarson formaður, Gréta María Grétarsdóttir og Sandra Rán Ásgrímsdóttir.

Umhverfisdagur atvinnulífsins er árlegur viðburður en að honum standa Samtök atvinnulífsins, Samorka, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu.

Hér má horfa á streymi frá Umhverfisdegi atvinnulífsins 2021: