Umhverfisfundaröð SA heldur áfram á morgun
Miðvikudaginn 31. janúar næstkomandi heldur fundaröð SA um atvinnulíf og umhverfi áfram en hún hófst á haustdögum 2006. Að þessu sinni verður fjallað um umhverfisáhrif frá álveri Alcan í Straumsvík - fyrir og eftir stækkun. Guðrún Þóra Magnúsdóttir leiðtogi umhverfismála hjá Alcan mun birta yfirgripsmikil gögn sem sýna þróun mála síðustu ár og áratugi og einnig birtir hún gögn um hvaða áhrif fyrirhuguð stækkun álversins mun hafa á umhverfið.
Yfirskrift fundarins er Umhverfisáhrif álversins í Straumsvík og fer hann fram í Húsi atvinnulífsins, Borgartúni 35, 6. hæð. Fundurinn hefst klukkan 8:30 og verður lokið klukkan 10:00. Allir eru velkomnir á meðan húsrúm leyfir en nauðsynlegt er að skrá þátttöku á vef SA. Fundurinn er hluti af fundaröð SA, Atvinnulíf og umhverfi, og er sá fjórði í röðinni.