Umdeilanleg ákvörðun um óbreytta stýrivexti
Peningastefnunefnd Seðlabankans tilkynnti í dag ákvörðun sína um óbreytta stýrivexti. Í umfjöllun nefndarinnar er gefið til kynna að þegar fram í sæki muni þurfa að hækka stýrivextina, en ekki er vikið að möguleika á vaxtalækkun. Nefndin fjallar um þætti sem vegast á um hvort vextir eigi að vera hærri eða lægri en nú. Þættir sem að öðru jöfnu ættu að stuðla að vaxtalækkun eru lakari hagvaxtarhorfur en áður á þessu og næstu árum, hjaðnandi verðbólga og styrking krónunnar undanfarna mánuði. Á móti því telur nefndin vega háar verðbólguvæntingar og minnkandi slaka í þjóðarbúskapnum. Þá koma fram áhyggjur af því að stefna í ríkisfjármálum og kjarasamningum muni ekki stuðla að því að verðbólgumarkmið náist á næstunni.
Samtök atvinnulífsins telja að rök fyrir vaxtalækkun vegi þyngra en rök fyrir óbreyttum vöxtum um þessar mundir. Stærsti vandi íslensks efnahagslífs eru litlar fjárfestingar og þar af leiðandi slakar hagvaxtarhorfur. Vextir Seðlabankans skipta miklu máli um það hvort fjárfestingar atvinnulífsins taka við sér eða ekki.
Rök fyrir vaxtalækkun voru rakin í grein á vef SA þann 24. apríl sl. Þar var bent á að ákvarðanir um núverandi vaxtastig hafi verið byggðar á spám um allt að 5,5% samanlagðan hagvöxt árin 2012 og 2013 og allt að 30% aukningu fjárfestinga, en nú er að útlit fyrir að hagvöxtur beggja áranna samanlagt verði aðeins 3,5% og fjárfestingar beggja áranna samanlagt dragist saman um 5%. Einnig var bent á að vísbendingar um þróun einkaneyslu fyrstu mánuði ársins bentu til minni hagvaxtar en spár gerður ráð fyrir, að stöðnun ríkti í efnahagslífinu, að ferðaþjónustu undanskilinni, og að hjaðnandi verðbólga fæli í sér stórhækkun raunstýrivaxta hér á landi sem væru neikvæðir í viðskiptalöndum okkar.
Jákvæð skilaboð frá Seðlabankanum felast í áformum um aukna virkni bankans á gjaldeyrismarkaði til að draga úr gengissveiflum krónunnar. Bankinn hyggst þannig nota tiltæk stjórntæki til að stuðla að verðstöðugleika. Þessi skilaboð bankans eru fagnaðarefni og vekja vonir um að gengi krónunnar verði stöðugra og þannig dragi úr verðbólguvæntingum fyrirtækja og almennings samhliða hjaðnandi verðbólgu.
Yfirlýsing peningastefnunefndarinnar og umfjöllun í Peningamálum felur í sér ákall til aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórnarinnar um ábyrgð í ákvörðunum um laun og ríkisfjármál. Bæði er gefið til kynna að stefna bankans um að stuðla að stöðugu gengi krónunnar og vaxtastefnan verði endurskoðuð í ljósi ákvarðana í ríkisfjármálum og kjarasamningum. Bankinn gengur út frá því að ríkisfjármál og launaþróun muni stuðla að verðbólgumarkmiðinu, en ef ekki þurfi bankinn að endurmeta stefnu sína.