Umbætur á samkeppnislögum skref í rétta átt
Samtök atvinnulífsins hafa skilað umsögn um frumvarp um breytingu á samkeppnislögum sem ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra birti í samráðsgátt stjórnvalda nýlega. Verði það samþykkt væri verið að færa lögin nær því sem tíðkast á Norðurlöndum og annars staðar í Evrópu.
Samtök atvinnulífsins telja frumvarpið skref í rétta átt, en leggja til ákveðnar breytingar og að gengið verði lengra. Skilvirkari samkeppnisreglur og samkeppniseftirlit eru bæði neytendum og fyrirtækjum til hagsbóta. Það á ekki síst við um minni fyrirtæki sem þurfa að leita á náðir Samkeppniseftirlitsins. Verði frumvarpið að lögum mun það gera Samkeppniseftirlitinu auðveldara að einbeita sér að því sem mestu máli skiptir fyrir neytendur og fyrirtæki.
Góð samkeppnislög stuðla að virkri samkeppni sem skilar sér í betri þjónustu og lægra verði á vöru og þjónustu. Ef þau eru hins vegar of íþyngjandi þá standa þau í vegi fyrir eðlilegri hagræðingu í atvinnulífinu sem skilar sér í hærra verði á vöru og þjónustu til neytenda. SA leggja áherslu á að öll löggjöf sem snertir atvinnulífið sé sem líkust því sem best gerist á Norðurlöndum og annars staðar í Evrópu. Sé löggjöf hér of íþyngjandi minnkar svigrúm fyrirtækja til að greiða laun, skapa störf og greiða skatta.
Helstu nýmæli frumvarpsins ...
Undanþágur frá bannákvæðum
Fyrirtæki bera sjálf ábyrgð á því að meta hvort að undanþágur frá bannákvæðum laganna eigi við. Nú þurfa þau að sækja um undanþágur til Samkeppniseftirlitsins. Með þessu er verið að færa fyrirkomulagið nær því sem gildir í Evrópu. Evrópusambandið gerði sambærilega breytingu hjá sér árið 2003 og hefur reynslan af því verið góð.
Íhlutun án brots
Afnumin verður heimild Samkeppniseftirlitsins til að hlutast til um starfsemi fyrirtækja sem hafa ekki framið nein brot á samkeppnislögum. Samkeppnisyfirvöld á Norðurlöndum, Eftirlitsstofnun EFTA og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hafa ekki slíka heimild. Óeðlilegt er að yfirvöld geti hlutast til um starfsemi fyrirtækja með mjög íþyngjandi hætti ef þau hafa í einu og öllu farið að lögum.
Veltumörk tilkynningarskyldra samruna
Veltumörk vegna tilkynningarskyldra samruna verður hækkuð um 50%, en þau hafa verið óbreytt síðan 2008. Hækkunin léttir álagi á Samkeppniseftirlitinu og fækkar málum á þeirra borði sem skipta neytendur litlu eða engu máli. SA hefðu viljað sá veltumörkin hækka enn meira, enda heldur hækkunin ekki í við verðlagshækkanir.
Málskotsréttur
Afnuminn verður réttur Samkeppniseftirlitsins til að skjóta úrskurðum áfrýjunarnefnda samkeppnismála til dómstóla. Verið er að færa framkvæmdina nær því sem gildir annars staðar í stjórnsýslunni og á Norðurlöndum.
Sjá nánar: