Um áfrýjunarnefnd samkeppnismála
Helga Melkorka Ólafsdóttir, hæstaréttarlögmaður, fjallaði um áfrýjunarnefnd samkeppnismála á opnum fundi Samtaka atvinnulífsins um samkeppnismál 3. október sl. Áfrýjunarnefndin er æðra stjórnvald og þangað verða ákvarðanir Samkeppniseftirlitsins kærðar innan ákveðinna tímamarka. Nauðsynlegt er að kæra ákvarðanir Samkeppniseftirlitsins fyrst til áfrýjunarnefndarinnar ef aðili máls ætlar að skjóta ákvörðun til dómstóla.
Helga sagði mikið rætt og ritað um þann langa tíma sem rannsókn samkeppnismála taki enda væru samkeppnismál alla jafna flókin. Þannig geti tekið langan tíma að rannsaka þau og komast að niðurstöðu. En hvað er til ráða?
Helga segir að ef horft er til úrskurða nefndarinnar árin 2010, 2011 og 2012 til dagsins í dag þá teljist henni til að nefndin hafi kveðið upp 27 úrskurði (skv. heimasíðu). Í örfáum tilvikum hafi ákvarðanir Samkeppniseftirlitsins verið felldar úr gildi og nokkuð ljóst sé að afar fátítt sé að efnisleg breyting verði á niðurstöðum Samkeppniseftirlitsins þegar mál eru til umfjöllunar hjá nefndinni. Í einhverjum tilvikum hefur sektaákvörðun þó verið breytt til lækkunar.
Það er mat Helgu að þetta kunni að hluta að helgast af vönduðum ákvörðunum Samkeppniseftirlitsins en ef fyrir liggur að hverfandi líkur eru á breyttri niðurstöðu hjá áfrýjunarnefndinni þá vakni sú spurning hvort ástæða sé til að vera með kærumöguleika til áfrýjunarnefndar? Þá sé einnig horft til þess að Samkeppniseftirlitið geti sjálft skotið úrskurðum áfrýjunarnefndar til dómstóla sem sé frávik frá meginreglu stjórnsýsluréttar um að lægra sett stjórnvald sé bundið af niðurstöðum æðra setts stjórnvalds. Samkeppniseftirlitið hafi til að mynda áfrýjað niðurstöðum héraðsdóms til Hæstaréttar ef héraðsdómur hefur breytt t.d. sektaákvörðunum til lækkunar. Alla jafna hafi lægra sett stjórnvöld ekki slíka heimild.
Helga telur mikilvægt að stöðug umfræða fari fram um hvað megi betur fara, ekki síður í samkeppnismálum en öðrum málum. Það að reka mál fyrir áfrýjunarnefnd samkeppnismála sé kostnaðarsamt fyrir aðila máls og taki tíma þannig að tafir verði á því að dómstólar fjalli um málið. Það sé umhugsunarefni að ef hverfandi líkur eru á því að ákvörðunum Samkeppniseftirlitsins verði efnislega breytt fyrir áfrýjunarnefnd hvort ástæða sé til að hafa þennan kærumöguleika til æðra stjórnvalds?
Einnig velti Helga því fyrir sér hvernig réttaröryggi málsaðila verði tryggt sem best samhliða því að flýtt sé fyrir endanlegri niðurstöðu í samkeppnismálum.
"Ef til vill er ekki rétt að Samkeppniseftirlitið rannsaki mál og taki ákvarðanir, bæði um það hvort lögin hafi verið brotin eða ekki og um sektafjárhæð. Mögulega gæti eftirlitið rannsakað mál og komist að niðurstöðu um brot eða ekki brot en dómstólar fjölluðu svo um sektaákvörðun."
Tengt efni:
Viðhorf atvinnulífsins. Samkeppnislögin og framkvæmd þeirra (PDF)