Um 500 milljóna kostnaður vegna siglingaverndar

Þann 25. maí 2004 voru samþykkt á Alþingi lög nr. 50/2004 um siglingavernd sem tóku gildi þann 1. júlí. Lögin hafa að markmiði að tryggja vernd skipa, áhafna, farþega, farms og hafnaraðstöðu fyrir hvers kyns ógn af hryðjuverkum og öðrum ólögmætum aðgerðum.  Lögin eru sett í framhaldi af breytingum á alþjóðlegum samningum sem gerðar voru á árinu 2003 í kjölfar hryðjuverkanna 11. september 2001. Með lögunum er þess krafist að gerðar verði ráðstafanir til að draga sem mest úr hryðjuverkaógninni. Gera þarf áhættumat og verndaráætlanir fyrir hafnir, hafnarsvæði og skip. Tryggja þarf að ekki komist aðrir inn á þessi svæði en þeir sem þangað eiga erindi. Auk þess verða að liggja fyrir áætlanir um hvernig bregðast skuli við ef tiltekin atvik koma upp. Samtök atvinnulífsins studdu frumvarpið á sínum tíma enda yrði kostnaði og umstangi haldið í lágmarki.  Nú hafa  borist ábendingar og kvartanir um það frá félagsmönnum SA að kostnaðurinn sem þessu fylgir sé mjög mikill og að reglur séu mun strangari hér en í nálægum löndum. Þess vegna ákváðu Samtöku atvinnulífsins að kanna hver kostnaðurinn hefði orðið í raun.  Eins verður kannað hvernig framkvæmd þessara mála er háttað í nágrannalöndum.

Mikill kostnaður
Lögin hafa vissulega haft mikinn kostnað í för með sér þar sem girða hefur þurft af hafnarsvæði og bæta þær sem fyrir voru. Sett hafa verið upp hlið þar sem aðgangi að svæðum er stýrt. Eftirlitsmyndavélar hafa verið settar upp á hafnarsvæðum í hundraðatali með tilheyrandi ljósleiðaralögnum og búnaði. Stöðug vakt er á svæðunum, bæði vakt öryggisvarða sem fara um og vakt myndavéla þar sem fylgst er með mannaferðum. Enginn fer inn á svæðin nema hafa til þess heimild sem gefin er út af ákveðnum aðilum. Eftirlit er með því hverjir fara um borð í skip sem stunda millilandasiglingar hvort sem um er að ræða farþegaskip eða vöruflutningaskip. Mjög mikilvægt er að uppfylla öryggiskröfur í vöruhöfnum fyrir millilandasiglingar til að viðkomandi höfn haldi þeirri vottun sem hún hefur. Sérstaklega eru hagsmunir ríkir hjá þeim sem stunda siglingar til Bandaríkjanna því hafnaraðstaða sem siglt er frá er undir sérstöku eftirliti Bandaríkjastjórnar.

Ávinningurinn er ekki mjög sýnilegur en felst í auknu öryggi og betri nætursvefni borgaranna. Þó að þetta umstang allt sé framandlegt þá má að ýmsu leyti bera þetta saman við öryggiskerfi á flugvöllum. Hugsunin er sú sama. Það er sérstaklega fylgst með öllu og öllum sem eru að fara úr landi en þegar kemur að því sem kemur inn til landsins eru það fyrst og fremst tollahagsmunir sem ráða gæslunni.

Dreifð ábyrgð
Ábyrgðin hér er í höndum fjölmargra. Samgönguráðuneytið fer með yfirstjórn málaflokksins. Siglingastofnun sér um að framfylgja alþjóðlegum kröfum, staðfestir áhættumat og verndar- og viðbragðsáætlanir, heldur námskeið, staðfestir verndarfulltrúa hafna og skipa og tilkynnir Alþjóðasiglingamálastofnun um þær hafnir sem uppfylla kröfur (75 hér á landi, þar af 12 Faxaflóahafnir). Hafnirnar gera áhættumat og verndaráætlun, tilnefna verndarfulltrúa, sjá um ráðstafanir og begðast við vá. Hafnir geta framselt verndarráðstafanir til rekstraraðila. Skipafélögin annast mat á áhættu, gera verndaráætlun fyrir skipin, tilnefna verndarfulltrúa og annast verndarráðstafanir fyrir skip og hafnarsvæði.

Farmvernd, gegnsætt kerfi
Farmvernd vegna útflutnings fer eftir reglum nr. 529/2004 sem útgefnar eru af tollstjóra. Útflytjendur fá vottun tollstjóra sem farmverndaraðili og gefa út farmverndaryfirlýsingu sem á að tryggja að farmur sé ósnertur frá þeim sem hleður gám til viðtakenda og að ábyrgðin sé alveg skýr. Þannig flyst ábyrgðin yfir á hafnarsvæðið um leið og farmur kemur inn fyrir hlið. Gámar eru læstir með sérstöku farmverndarinnsigli sem tollstjóri gefur út. Þetta kerfi þýðir að hafnir og skip þurfa ekki að hafa sérstakt eftirlit með því sem í gámum er. Kerfið virðist einfalt, skilvirkt og gegnsætt.

Í lögunum er gert ráð fyrir að Siglingastofnun og hafnir setji gjaldskrár til að standa undir kostnaði. "Hafnir skulu innheimta sérstakt gjald, siglingaverndargjald, af vörum sem umskipað er, lestaðar eru eða landað í höfn. Gjald þetta skal taka mið af magni og eðli vöru og standa undir stofnkostnaði, rekstrarkostnaði og hluta sameiginlegs kostnaðar af ráðstöfunum til verndar farmi á hafnaraðstöðu, svo sem girðingum, vöktun, leit og lokun svæða." Auk þessa eiga hafnir að innheimta gjald fyrir hverja skipakomu og gjald fyrir hvern farþega í millilandaferð með skipi.

150 milljónir til Reykjavíkurhafnar
Um Reykjavíkurhöfn fer mestur hluti inn- og útflutnings landsmanna og er í gildi gjaldskrá frá 1. mars 2005 þar sem er að finna eftirfarandi vegna siglingaverndar:

Farþegavernd

172 kr/farþega

Skipavernd      

27.000 kr/skipakomu

Siglingaverndargjald af vörum 

20% álag á vörugjald

Vaktmaður    

2500 kr/klst.



                                                                                              

Í heild má ætla að tekjur hafnarinnar á þessu ári verði um 110 mkr af siglingaverndargjaldi af vörum, 7 mkr vegna 40.000 farþega, 20 mkr vegna skipaverndar og 10 mkr vegna annara tekna. Í heild eru þetta um 150 mkr á árinu.

Fjárfesting hafnarinnar varð tæpar 190 mkr og mest vegna aðstöðu Eimskipa og Samskipa við Vatnagarða og Kleppsvík. Afskriftir reiknast um 22 mkr á ári og svo greiðir höfnin skipafélögunum um 100 mkr vegna siglingaverndar á athafnasvæðum þeirra. Auk þessa hefur höfnin kostnað vegna annara skipakoma og farþega. Í heild má ætla að kostnaður hafnarinnar sé svipaður tekjunum eða um 150 mkr.

Eins og kunnugt er þá er vörugjald hafna í fjórum mismunandi flokkum og eru gjöldin 178 kr/tonn, 218 kr/tonn, 371 kr/tonn og 1022 kr/tonn þar sem það ræðst að einhverju leyti af verðmæti vöru í hvað flokki hún lendir og að einhverju leyti af öðrum atriðum.


Öryggismálin verði ekki samkeppni að bráð
Stóru skipafélögin sjá alfarið um siglingaverndina á sínum svæðum, það er hafna-, skipa- og farmvernd. Höfnin sér um að gjaldskráin sé þannig að tekjurnar standi undir þeim kostnaði sem af siglingaverndinni leiðir. Skipafélögin hafa lagt megináherslu á að öryggismálin verði ekki samkeppni að bráð og bera þetta gjarnan saman við öryggi á flugvöllum þar sem ekki myndi líðast að slakað yrði á öryggiskröfum til að ná forskoti gagnvart keppinautum.

Eins og áður hefur komið fram greiðir Reykjavíkurhöfn félögunum um 100 mkr á árinu til að standa undi kostnaði við siglingaverndina. Kostnaðurinn felst í stöðugri gæslu allan sólarhringinn (10 störf eða fleiri), aukamönnum á daginn, þjálfun, 100 myndavélum eða fleiri, aðgangsstýringum, kostnaði vegna skipa og ýmsum rekstrarkostnaði. Það fylgir þessu þó ekki einungis kostnaður því einnig hefur orðið töluverður sparnaður við að umferð um hafnarsvæðin hefur minnkað, það eru engir óviðkomandi á ferð og því minni truflun.

Skipafélögin innheimta öryggisgjald af viðskiptavinum sínum sem leggst á hvern gám sem þau flytja. Áætla má að þetta gjald geti verið um 1200 kr/gámaeiningu og ef miðað er við að gjald sé tekið af 175 þúsund gámaeiningum (af um 250 þúsund sem ætlað er að hafi farið um höfnina árið 2004) eru tekjurnar vegna þessa um 210 mkr. Gjaldinu er ætlað að standa undir þeim kostnaði sem félögin verða fyrir innanlands og utan vegna aukinna öryggiskrafna.

Það er ekki bara hér á landi sem þessi kostnaður leggst á vöruna heldur leggja hafnir erlendis á öryggisgjald og sama á við um skipafélög. Sem dæmi má nefna að Rotterdamhöfn innheimtir 8,5 €/gámaeiningu og að Maersk skipafélagið innheimtir 6 $/gámaeiningu.

Gjöld sem lögð eru á farmflytjendur í heildina eru samantekin þessi:

 Gjöld innheimt af Reykjavíkurhöfn

150 mkr

 Öryggisgjald skipafélaga

210 mkr

 Áætlað vegna annara hafna

 60 mkr

 Samtals

420 mkr



         

Auk þessa kemur til kostnaður Siglingastofnunar, ráðuneyta, löggæslu, tollyfirvalda, útflytjenda og annara. Í heildina er þessi kostnaður sennilega nálægt 500 mkr á ári. Þegar lögin voru sett var gert ráð fyrir töluverðum kostnaði í höfnum landsins og er ekki annað en að sjá en að gjöldin séu í takt við þær tölur sem nefndar voru.

Hér er um að ræða mikinn kostnað en ávinningurinn lítt sýnilegur. Það eru neytendur sem greiða þennan kostnað í hærra vöruverði að mestu og að einhverju leyti með hærri opinberum gjöldum.

Mikilvægt að gæta ítrustu hagkvæmni
Niðurstaða þessarar umfjöllunar er að kostnaðurinn er nokkurn veginn í takt við það sem gert var ráð fyrir þegar lögin voru sett fyrir um ári síðan. Mikilvægt er að fylgst sé náið með því hvernig þróun þessara mála verður og að gjaldtakan sé í samræmi við tilefnið, að hún sé eins gegnsæ og frekast getur orðið og að notendur þjónustunnar fái fulla vitneskju um hvað þeir eru að greiða fyrir. Eins er mikilvægt að þeir sem að þessu koma gæti þess að gæta ítrustu hagkvæmni í framkvæmd þessara mála og að ekki séu gerðar ítarlegri kröfur en efni eru til og áhættumat gefur til kynna.