Tryggingagjaldið lækkar

Almenna tryggingagjaldið mun lækka úr 4,9 prósentum í 4,65 prósent á næsta ári til að milda áhrifin af launahækkunum sem samið var um í lífskjarasamningum, nái frumvarp fjármálaráðherra fram að ganga. Bjarni Benediktsson mælti í gær fyrir frumvarpi sínu um skatta og gjöld en meðal þess sem það felur í sér er tímabundin lækkun tryggingagjaldsins.

Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við forsendur lífskjarasamningsins var lagt til að almenna tryggingagjaldið verði lækkað tímabundið í eitt ár, eða í staðgreiðslu á árinu 2021 og við álagningu opinberra gjalda á árinu 2022 vegna tekna ársins 2021.

Lækkun tryggingagjaldsins mun jafngilda því að gjaldið verði ekki lagt á stofn sem nemur kjarasamningsbundnum launahækkunum sem koma til framkvæmda um komandi áramót.

Í frumvarpi ráðherrans segir að heildartekjur af tryggingagjaldi muni dragast saman um 4 milljarða kr. sökum lækkunarinnar. Þar af lækki greiðslur ríkisins um 0,9 milljarða kr. og muni nettótekjuáhrif á ríkissjóð því verða 3,1 milljarður kr. til lækkunar. Jafnframt komi þessi aðgerð til með að lækka útgjöld sveitarfélaga um 0,5 milljarða kr. á næsta ári.