Tryggingagjald verði lækkað
Það er tímabært að lækka tryggingagjaldið að mati Samtaka atvinnulífsins en hátt tryggingagjald takmarkar svigrúm fyrirtækja til að ráða starfsfólk og fjölga störfum. Fjallað er um málið í ítarlegri fréttaskýringu Viðskiptablaðsins í dag. Þar kemur m.a. fram að starfsmannakostnaður íslenskra fyrirtækja er yfir meðaltali ESB. Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA, segir það hafa verið mikil vonbrigði þegar þáverandi ríkisstjórn ákvað árið 2012 að hækka tryggingagjaldið, enda hafi forsvarsmenn vinnuveitenda og stéttarfélaga þvert á móti talið tilefni til lækkunar gjaldsins.
„Þegar ákveðið var að hækka tryggingagjaldið árið 2009 studdi atvinnulífið það, enda töldum við betra að takast á við aukið atvinnuleysi með þessum hætti frekar en með skuldsetningu atvinnuleysistryggingasjóðs. Það var hins vegar gert í trausti þess að tryggingagjaldið yrði lækkað aftur þegar svigrúm gæfist.“
Í úttekt Viðskiptablaðsins segir Þorsteinn að almennt hafi hærri starfsmannakostnaður neikvæð áhrif á getu fyrirtækja til að ráða starfsfólk.
„Við höfum orðað það þannig að fyrirtæki sem er með 10 manns í vinnu er með ellefta manninn á launaskrá vegna tryggingagjaldsins og þá er ekki horft á önnur launatengd gjöld. Almennt er það þannig að hærri kostnaður býr til hvata fyrir fyrirtæki til að auka frekar framleiðni og hagræða í rekstri frekar en að ráða fólk.“
Sjá nánari umfjöllun í Viðskiptablaðinu 14. ágúst 2014.