Tryggingagjald og nýsköpun

Í nýútkomnu riti Samtaka atvinnulífsins, Ræktun eða rányrkja?, eru stjórnvöld hvött til þess að lækka tryggingagjald til samræmis við minnkandi atvinnuleysi. Tillaga er gerð um lækkun úr 7,79% í 7,04%. Tryggingagjald er skattur á launagreiðslur fyrirtækja að viðbættum iðgjöldum sem þau greiða til lífeyrissjóða. Gjaldið stendur undir atvinnuleysisbótum og að hluta lífeyrisgreiðslum almannatrygginga.

Tryggingagjaldið leggst misþungt á fyrirtæki og fer hækkandi með auknu vægi launagreiðslna af tekjum þeirra. Hátt launahlutfall, og þar með hátt tryggingagjald í hlutfalli við tekjur, er gjarnan í litlum fyrirtækjum, sprotafyrirtækjum, þekkingarfyrirtækjum, hugbúnaðarfyrirtækjum og fyrirtækjum í skapandi starfsemi.

Hlutfall launa og tengdra gjalda í atvinnulífinu var að meðaltali 27% af tekjum árið 2010. Launahlutfall er hæst í kringum 50%. Það á við um starfsemi arkitekta og verkfræðinga, vísindarannsóknir og þróunarstarf og þjónustu og starfsemi á sviði upplýsingatækni. Það er ekki síst í þessum greinum sem vonir eru bundnar við að nýsköpun stuðli að fleiri og betri störfum og því mikilvægt að búa þeim sem hagstæðust skattaleg skilyrði.

Því er stundum haldið fram að tryggingagjöld séu lág hér á landi í samanburði við önnur ríki og því sé atvinnulífinu engin vorkunn að greiða þau. Sá samanburður er óréttmætur þar sem flest ríkin sem borið er saman við eru ekki að byggja upp lífeyrissjóði utan ríkisins eins og gert er hérlendis heldur standa tryggingagjöldin þar undir lífeyrisgreiðslum á hverjum tíma. Þá er aldurssamsetning víðast í samanburðarríkjunum óhagstæðari en hér á landi og lífeyrisbyrðin þyngri. Þetta á m.a. við stór ríki eins og Frakkland þar sem álögð tryggingagjöld námu 16,6% af landsframleiðslu (VLF) landsins árið 2010 en að meðaltali námu þau 9,1% af VLF í OECD-ríkjunum það ár. Hér á landi var hlutfall tryggingagjalda 4,1% af VLF en lögbundin iðgjöld í lífeyrissjóði voru enn meiri eða 5,4% af VLF og framlög til lífeyrismála því samtals 9,5% af VLF.

Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri SA.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 23. nóvember 2012