Tryggingagjald lækki í samræmi við samkomulag

Að óbreyttu mun tryggingagjald ekki lækka í ársbyrjun 2017 eins og til stóð og samkomulag var um. Samtök atvinnulífsins trúa ekki öðru en að stjórnvöld standi við fyrirheit sín og að lækkun á tryggingagjaldi verði bundin í lög á þessu ári og taki gildi um næstu áramót. Gjaldið er mun hærra en það ætti að vera þar sem atvinnuleysi hefur minnkað hratt. Tryggingagjald kemur harðast niður á litlum og meðalstórum fyrirtækjum og takmarkar nýsköpun. Því er  brýnt að það lækki þar sem góðar aðstæður í efnahagslífinu bjóða upp á það.

Gjaldið til fyrra horfs
Á grundvelli samkomulags við fjármálaráðherra um lækkun tryggingagjalds á næstu árum undirrituðu Samtök atvinnulífsins kjarasamning 22. janúar 2016 við ASÍ á grundvelli rammasamkomulags aðila vinnumarkaðarins frá 27. október 2015. Samkomulagið við fjármálaráðherra gekk út á það að tryggingagjaldið myndi lækka um 0,5% um mitt ár 2016 og um sama hlutfall árin 2017 og 2018 að gefnum forsendum um lækkun skulda ríkisins. Þannig yrði gjaldið komið í fyrra horf, þ.e. í 4,5%, á árinu 2018.

Svigrúm til lækkunar

Fjármálaáætlun ríkissjóðs til ársins 2021 sýnir glöggt að vaxandi tekjur ríkissjóðs og lækkun skulda skapa svigrúm til að lækka gjaldið.

Í byrjun apríl sl. lagði fjármálaráðherra fram frumvarp á Alþingi þar sem kveðið er á um lækkun tryggingagjaldsins á árinu 2016. Í ljósi ákvörðunar ríkisstjórnarinnar um að flýta alþingiskosningum til haustsins leggja Samtök atvinnulífsins áherslu á að fyrirhuguð lækkun gjaldsins á árinu 2017 verði lögfest.

SA telja nauðsynlegt að lækka tryggingagjaldið til fyrra horfs og auðvelda fyrirtækjum með því að mæta umsömdum launahækkunum og jöfnun lífeyrisréttinda samkvæmt nýgerðum kjarasamningum án þess að raska efnahagslegum stöðugleika.

Tillögur meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis sem kynntar voru í vikunni gera ekki ráð fyrir því að tryggingagjaldið lækki í ársbyrjun 2017. Samtök atvinnulífsins hvetja stjórnvöld til að tryggja að svo verði.