Traust

Að kvöldi 3. apríl voru undirritaðir kjarasamningar við verkafólk og verslunarmenn eftir stífa samningalotu. Um langa hríð leit ekki út fyrir að hægt væri að gera nýja kjarasamninga sem atvinnulífið gæti staðið undir með góðu móti. Ótímabundin verkföll í ferðaþjónustu frá 1. maí virtust óumflýjanleg staðreynd. Á endanum náðust samningar til langs tíma með aðkomu ríkis og sveitarfélaga.

Samningarnir hafa nú verið samþykktir en þeir ná til um 100 þúsund manns á almennum vinnumarkaði og eru stefnumarkandi fyrir þá sem enn eiga eftir að semja um kaup og kjör. Í stað verkfalla hækka laun þann 1. maí. Traust myndaðist smátt og smátt milli samningsaðila undir dyggri verkstjórn ríkissáttasemjara og sameiginleg framtíðarsýn leit dagsins ljós. Víðtæk sátt náðist sem getur reynst landsmönnum farsæl ef samið verður við aðra á sambærilegum nótum.

Allra hagur
Lífskjarasamningurinn 2019-2022 er yfirskrift þeirra fjölmörgu samninga og yfirgripsmiklu aðgerða sem aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld hafa sammælst um næstu árin. Í grunninn snýst Lífskjarasamningurinn um fjórþætta lausn. Hærri laun, einkum lágtekjuhópa, aukinn sveigjanleika til að stytta vinnuvikuna, lægri skatta og leiðir til að skapa jarðveg fyrir lægri vexti á Íslandi til framtíðar sem er sameiginlegt hagsmunamál heimila og fyrirtækja. Þá vekja umfangsmiklar aðgerðir atvinnulífs og stjórnvalda á húsnæðismarkaði vonir um að hægt verði að auka framboð nýrra íbúða á hagkvæmu verði sem auðvelda ungu og tekjulágu fólki að tryggja sér öruggt húsnæði.

Hækkun launa á næstu árum munu taka mið af stöðu efnahagslífsins hverju sinni og er það mikilvægt. Nauðsynlegt er að halda launabreytingum í samræmi við framleiðniaukningu í atvinnulífinu. Það eru engin ný sannindi sem felast í því að hækki laun umfram það eiga fyrirtækin ekki annan kost en að hækka verð, draga úr vöruþróun, nýsköpun og markaðssókn - eða fækka fólki sem alltaf er neyðarbrauð.

Komandi tíð
Formdæmalausri efnahagsuppsveiflu liðinna ára er lokið en nýir samningar veita atvinnulífinu svigrúm til að ná þrótti á ný og sækja fram á þeim grunni sem lagður hefur verið. Að sama skapi veita samningarnir heimilum landsins von um að kaupmáttaraukning liðinna ára verði varin og að hægt verði að bæta kjör fólks enn frekar. Afgerandi stuðningur atvinnulífsins við nýsamþykkta samninga sýnir vilja fyrirtækjanna í landinu til að leggja sitt af mörkum til þess að lífskjör allra geti vænkast, verðlag haldist stöðugt og verðbólga verði lítil.

Mikilvægt er að fyrirtæki haldi aftur af verðhækkunum eftir fremsta megni. Því er þó ekki að leyna að umsamdar launahækkanir munu reynast sumum fyrirtækjum erfiðar en þá mun reyna á möguleika til að hagræða og leita hagkvæmari leiða í rekstri. Allir verða að leggja sitt af mörkum og sýna ábyrgð. Það á einnig við launakjör þeirra sem eru með hæstu launin. Það er afar mikilvægt að í efri tekjuhópum fyrirtækjanna verði ekki farið fram úr þeim krónutöluhækkunum sem um hefur samist. Það er líka ljóst að fyrirtæki þurfa að gæta hófs um launabreytingar utan samninga því launaskrið mun leiða til hækkunar með svokallaðri launaþróunartryggingu sem kveðið er á um í samningunum.

Í okkar höndum
Hver er sinnar gæfu smiður segir máltækið. Segja má að síðastlið ár hafi verið ár umskipta í efnahagslífinu og viðhorfum stjórnenda. Gallup hefur frá árinu 2002 kannað ársfjórðungslega stöðu og horfur meðal stjórnenda 400 stærstu fyrirtækja landsins fyrir Seðlabanka Íslands og Samtök atvinnulífsins. Eftir stöðugt fjögurra ára tímabil uppgangs og bjartsýni mældist skyndilega snarpur viðsnúningur sumarið 2018 og leiðin lá niður á við í kjölfarið. Væntingar stjórnenda á stöðu mála höfðu ekki mælst lægri frá 2013 og mat á horfum næstu mánaða mældust í sögulegu lágmarki. Þegar nýtt ár heilsaði var útlit fyrir fækkun starfa á vinnumarkaði og horfur á minnkandi fjárfestingum í öllum atvinnugreinum. Skilaboð Samtaka atvinnulífsins voru hins vegar skýr. Með skynsömum kjarasamingum til langs tíma væri hægt að skapa forsendur fyrir aukinni bjartsýni og skapa kjöraðstæður fyrir fólk og fyrirtæki til að búa til norrænt fyrirmyndarsamfélag.

Tilraunarinnar virði
Hversu traust samkomulag aðila vinnumarkaðarins undir merkjum Lífskjarasamningsins mun reynast  mun tíminn aðeins leiða í ljós en fyrir liggur áætlun til næstu fjögurra ára um að bæta lífskjör allra landsmanna. Samstarf sem byggir á trausti á milli fyrirtækja, launafólks, ríkis og sveitarfélaga er markvert skref í átt að betra samfélagi.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Greinin birtist í Viðskiptablaðinu, 26. apríl 2019