Tími breytinga
Sterkt og samkeppnishæft atvinnulíf byggist á mörgum stoðum; stoðum sem snerta ekki eingöngu skýra efnahagsstefnu, ábyrg ríkisfjármál eða einfaldara regluverk. Öflugt og sveigjanlegt menntakerfi sem mætir þörfum atvinnulífsins og ýtir undir möguleika einstaklinganna til að auka við sig hæfni og færni í leik og starfi er ein af grunnstoðum þess að við getum byggt upp fjölbreytt og öflugt atvinnulíf. Það sama gildir um sterka rannsóknar- og tæknisjóði þar sem grunnreglan við veitingu fjármagns byggir á samkeppni. Margt hefur verið gert í þá veru á umliðnum árum og áratugum en betur má ef duga skal.
Efling iðn- og starfsnáms, sveigjanleiki í námi, stytting námstímaÁherslur nýs menntamálaráðherra og vilji til mikilvægra breytinga á menntakerfinu eru fagnaðarefni enda brýnt að haldið verði áfram með þær fyrirætlanir sem hin heildstæða skólalöggjöf frá árinu 2008 felur í sér. Hafði þá lengi verið kallað eftir auknu vægi og virðingu iðn- og verknáms sem og aðgerða gegn brottfalli auk sveigjanleika í námi. Markmið löggjafarinnar frá 2008, sem allir stjórnmálaflokkar samþykktu, er að að auka sveigjanleika í skólastarfi m.a. milli skólastiga, efla iðn- og starfsnám og stytta námstíma til stúdentsprófs eins og kostur er. Allir þessir þættir eiga síðan að geta stuðlað að minna brottfalli úr námi. Svo ekki sé minnst á fjárhagslegan ávinning nemenda og þjóðhagslegan fyrir samfélagið að nemendur útskrifist fyrr úr framhaldsskóla en nú er. Þessum brýnu málum var því miður slegið á frest í nokkur ár á síðasta kjörtímabili en nú er lag; nú er tími fyrir frekari breytingar á fræðslu- og skólakerfinu. Ef mönnum er alvara með að styrkja og efla íslenskt atvinnulíf verður ekki litið framhjá því mikilvæga tæki sem menntakerfið er.
Að breyta hugsunarhætti og nálgunÁkall er um breytingar og það róttækar. Mörg skref er hægt að taka í þá veru. Eitt er að ýta við framkvæmd skólalöggjafarinnar, hitt er að skoða fleiri kosti er hjálpa til við að stokka upp í kerfinu og gera okkur samkeppnishæfari til lengri tíma. Við erum að sjá sveitarfélögin mörg hver, framhaldsskóla og sjálfstæða fræðsluaðila taka mikilvægar ákvarðanir í þágu skólamála þar sem svigrúm er veitt fyrir breyttan hugsunarhátt og nálgun.
Reykjavíkurborg ákvað t.d. á sínum tíma að tryggja að sama fjármagn fylgdi barni í leikskóla. Hjallastefnan tók við rekstri Laufásborgar, fjölgaði börnum úr 91 í 127 með því að breyta skrifstofum í skólasvæði fyrir börnin. Nú eru um 500 börn á biðlista. Menntaskólinn á Akureyri hefur í samvinnu við Akureyrarbæ gert krökkum, sem það kjósa, kleift að hefja nám fyrr í menntaskóla. Frá Kvennaskólanum í Reykjavík útskrifast nú um 70% stúdenta á þremur árum. Mosfellsbær hefur farið af stað með Krikaskóla sem er samþættur leik- og grunnskóli fyrir börn á aldrinum 2-9 ára. Önnur bæjarfélög hafa einnig sýnt mikinn metnað við framkvæmd skólastefnu. Garðabær hefur um árabil haft forystu þegar kemur að fjölbreytni og valfrelsi í skólastarfi. Nú hefur sveitarfélagið óskað eftir því við ríkið að taka yfir rekstur Fjölbrautaskólans í Garðabæ til reynslu með það í huga að geta m.a. boðið upp á heildstæða skólastefnu frá 18 mánaða til 18 ára aldurs. Þessari breyttu nálgun er vert að veita athygli og helst framgang.
Umræða nauðsynleg, breytingar óumflýjanlegarUmræða um nýjungar og breyttar aðferðir í skólamálum, bæði í kennsluháttum sem rekstri, kemur alltaf upp reglulega. En slíkar umræður eru líka nauðsynlegar svo hægt sé að kallast á við nýtt og betra kerfi. Þar er ekkert undanskilið. Getur t.d. ávísanakerfi þar sem fé fylgir barni óháð því hvaða skóla það velur stuðlað að betra og skilvirkara skólastarfi? Í Svíþjóð hefur það gefið góða raun en þar hefur fjölbreytni og samkeppni á sviði skólamála frekar stuðlað að eflingu menntakerfisins en hitt.
Breytingar á skólakerfinu eru óumflýjanlegar, þær kalla á umræður og hugsanlega tímabundnar vindkviður af hálfu einstakra aðila, en þær mega ekki bíða ef taka á tillit til samfélagsins alls og samkeppnisstöðu landsins.
Ávinningurinn er augljós. Efling menntakerfis, hins óformlega sem formlega, eykur hagvöxt til lengri tíma og rennir styrkari stoðum undir fjölbreytt og eftirsóknarvert atvinnulíf. Þannig verður samfélagið allt blómlegra. Í því samhengi er rétt að undirstrika að Samtök atvinnulífsins styðja þessi markmið laganna og áform menntamálaráðherra til frekari menntasóknar enda eru þau í samræmi við ályktanir samtakanna um árabil.
Á þessu sviði sem öðrum er varðstaða um kyrrstöðu ekki valkostur.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, forstöðumaður mennta- og nýsköpunarsviðs SA.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 2. október 2013