Tímabær vaxtalækkun

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að lækka stýrivexti úr 4,5% í 4%. Í ljósi breyttra efnahagshorfa er 0,5 prósenta vaxtalækkun viðeigandi og tímabær enda mikilvægt að draga úr aðhaldi peningastefnunnar og styrkja stöðu heimila og fyrirtækja til að takast á við vaxandi erfiðleika á komandi mánuðum.

Lægri vextir auka ráðstöfunartekjur heimila og örva fjárfestingu og nýsköpun fyrirtækja. Lægri vextir skapa fyrirtækjum svigrúm til að mæta hækkun launakostnaðar vegna Lífskjarasamningsins og til að takast á við krefjandi efnahagsaðstæður. Lægri vextir styrkja þannig stoðir efnahagslífsins og lífskjara.

Eitt meginmarkmið Lífskjarasamningsins er að launahækkanir samrýmist stöðugu verðlagi og skapa þannig skilyrði fyrir vaxtalækkun sem nú hefur gengið eftir.

Í kjölfar undirritunar Lífskjarasamningsins hafa verðbólguvæntingar minnkað, verðbólguálag á skuldabréfamarkaði hefur lækkað og nýleg könnun Seðlabankans sýnir minnkandi verðbólguvæntingar markaðsaðila. Samhliða minnkandi verðbólguvæntingum hefur aðhald peningastefnunnar aukist að undanförnu en þrátt fyrir vaxtalækkunina eru raunvextir enn mjög háir og er aðhaldið svipað og í lok síðasta árs þegar efnahagshorfur voru betri en nú. Þá eru raunstýrivextir mun hærri en í samanburðarríkjum. Frekari lækkun stýrivaxta á næstu mánuðum er því rökrétt en í yfirlýsingu peningastefnunefndar stendur orðrétt:

Svigrúm peningastefnunnar til að mæta efnahagssamdrættinum er einnig töluvert, sérstaklega ef fer sem horfir og verðbólga og verðbólguvæntingar haldast við verðbólgumarkmið. Þá munu boðaðar aðgerðir stjórnvalda í tengslum við gerð kjarasamninga leggjast á sömu sveif.“

Peningastefnunefnd er reiðbúin til þess að lækka stýrivexti frekar til að mæta slaka í efnahagslífinu að því gefnu að verðbólguhorfur verði áfram stöðugar og verðbólguvæntingar við markmið.  Næsta vaxtaákvörðun Seðlabankans verður 26. júní.

Samspil ríkisfjármála og peningastefnu í niðursveiflu
Hagvaxtarspá Seðlabankans tekur töluverðum breytingum frá síðustu birtingu en í henni er gert ráð fyrir 0,4% samdrætti árið 2019, en til samanburðar spáði bankinn 1,8% hagvexti í febrúar síðastliðnum. Á árunum 2020-2021 er gert ráð fyrir að hagkerfið taki við sér á ný og að hagvöxtur verði 2,4-2,6%. Hagvaxtarspá Seðlabankans er svipuð  spám annarra aðila sem birst hafa á síðustu mánuðum. Verðbólguspá bankans tekur einnig breytingum og er gert ráð fyrir hraðari hjöðnum verðbólgu en áður þannig að hún verði við markmið um mitt næsta ár.

Efnahagsaðstæður hafa tekið miklum breytingum undanfarna mánuði í kjölfar gjaldþrots WOW Air og versnandi horfa í ferðaþjónustu. Líklegt er að hagspár Seðlabankans og annarra greiningaraðila muni taka talsverðum breytingum eftir því sem frekari vísbendingar berast, en samkvæmt leiðandi hagvísi Analytica er útlit fyrir stöðnun eða samdrátt fram eftir árinu 2020.

Þótt efnahagshorfur hafi versnað er lítil hætta á sambærilegu efnahagsáfalli og fyrir áratug síðan. Staða þjóðarbúsins er sterk, erlend staða góð og gjaldeyrisvaraforði ríflegur. Afgangur af rekstri hins opinbera og lágar skuldir skapa skilyrði fyrir stjórnvöld og Seðlabankann til að mýkja fyrirsjáanlega efnahagslægð.

Að mati Samtaka atvinnulífsins er ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabankans fyrsti áfangi í vaxtalækkunarferli. Að óbreyttum horfum og skilyrðum er líklegt að nefndin lækki stýrivexti enn frekar þegar þeir verða teknir til endurskoðunar þann 26. júní næstkomandi.