Til Alþingis frá SA: Virkjum tækifærin og rjúfum kyrrstöðuna
Samtök atvinnulífsins sætta sig ekki við núverandi ástand og horfur í atvinnumálum. Með markvissum aðgerðum er hægt að koma efnahagslífinu á rétta braut. Efnahagsleg stöðnun er heimatilbúinn valkostur. Það er löngu tímabært að atvinnumálin fái forgang.
Lítill hagvöxtur, skortur á framkvæmdum og fjárfestingum, atvinnuleysi og brottflutningur fólks tefur endurreisn og rýrir lífskjör fólks í landinu. Árið 2011 er enn eitt ár vannýttra tækifæra. "Eitthvað annað" stefnan er fullreynd.
Samtök atvinnulífsins benda á atvinnuleiðina. Markvissa leið fjárfestinga og framkvæmda, sem dregur úr atvinnuleysi og eykur hagvöxt.
Samtök atvinnulífsins hvetja Alþingi að taka nú frumkvæði og láta framsæknar aðgerðir í atvinnumálum hafa algjöran forgang. Mörkum skýra stefnu, eyðum óvissu undirstöðuatvinnugreina. Leysum úr læðingi uppsafnaða fjárfestingarþörf og sköpum ný atvinnutækifæri í byggðum landsins.
Sækjum fram. Rjúfum kyrrstöðuna og virkjum þau tækifæri sem blasa við.
Sent til allra alþingismanna 13. desember 2011.