Þrjú megineinkenni hálaunalandsins
Það er ánægjuefni kaupmáttur launa landsmanna hafi vaxið mikið á traustum grunni. Undanfarin ár hefur mikill hagvöxtur stuðlað að bættum kjörum og fjölgun starfa. Þrátt fyrir miklar launahækkanir hefur verðbólga verið hófleg og kaupmáttur því aukist mikið. Í ljósi lakra efnahagshorfa er mikil áskorun fólgin í viðhaldi þess kaupmáttar. Minnkandi tekjur munu óhjákvæmilega knýja mörg fyrirtæki, sveitarfélög og ríkið til hagræðingar til að mæta háum launakostnaði.
Hagstofa Íslands hefur nú birt upplýsingar um meðallaun og dreifingu þeirra árið 2018. Hér verður ljósi varpað á þrjá meginþætti. Í fyrsta lagi hafa laun hækkað mjög mikið undanfarin ár og laun opinberra starfsmanna (ríkis og sveitarfélaga) hækkað meira en starfsmanna á almennum vinnumarkaði. Launamunur milli almenna og opinbera vinnumarkaðarins hefur minnkað og er nú hverfandi. Í öðru lagi voru meðallaun ríkisstarfsmanna 12% hærri en meðallaun á almennum vinnumarkaði og í þriðja lagi eru laun á Íslandi hæst á Norðurlöndum.
1. Miklar launahækkanir – opinberir starfsmenn hækka mest
Á árunum 2014 til 2018 hækkuðu meðallaun opinberra starfsmanna um 36% en um 22% á almennum vinnumarkaði. Þetta eru miklar launahækkanir í ljósi þess að þær voru 8% að meðaltali á hinum Norðurlöndunum.
*Miðað við nafnlaunakostnað á Norðurlöndum (e. nominal unit labour cost)
Samhliða meiri hækkun meðallauna opinberra starfsmanna en á almennum vinnumarkaði hefur launamunur milli þessara markaða minnkað og var orðinn hverfandi árið 2018, eða um 3%.
2. Ríkisstarfsmenn með hæstu meðallaunin
Árið 2018 voru heildarlaun ríkisstarfsmanna í fullu starfi að meðaltali 818 þús.kr. á mánuði en 729 þús.kr. á almennum vinnumarkaði og 593 þús.kr. hjá sveitarfélögunum. Meðaltal heildarlauna ríkisstarfsmanna var þannig 12% hærra en á almennum vinnumarkaði.
Töluverðar breytingar hafa orðið á samsetningu starfa á vinnumarkaðnum undanfarin ár. Störfum í ferðaþjónustu hefur fjölgað mikið en fjölgað minna í öðrum greinum og jafnvel fækkað í sumum. Störfum fjölgaði um 31 þúsund frá árinu 2011 og þar af um 8 þúsund í ferðaþjónustu. Á sama tíma fækkaði störfum um ríflega 2 þúsund í fjármálageiranum. Slíkar breytingar á samsetningu starfa hafa áhrif á útreiknuð meðallaun á almennum vinnumarkaði, t.d. ef störfum fjölgar þar sem meðallaun eru undir meðaltali og þeim fækkar sem eru yfir meðaltali.
3. Meðallaun á Íslandi hæst á Norðurlöndum
Heildarlaun starfsfólks í fullu starfi á almennum vinnumarkaði árið 2018 voru mun hærri á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum. Heildarlaunin voru 729 þús. kr. að meðaltali á Íslandi, samanborið við 631 þús. kr. í Noregi og 457 þús. kr. í Svíþjóð. Upplýsingar um laun í Danmörku árið 2018 birtast ekki fyrr en í september en ætla má að heildarlaunin verði þar um 650 þús. krónur sé mið tekið af gengis- og launaþróun. Heildarlaun á Íslandi voru þannig 16% hærri en í Noregi og 59% hærri en í Svíþjóð.
Í súluritinu eru einnig grunnlaun og regluleg laun borin saman milli landanna. Grunnlaun á Íslandi voru að meðaltali 3% hærri en í Noregi og 38% hærri en í Svíþjóð árið 2018 og regluleg laun voru 1% hærri á Íslandi en í Noregi og 38% hærri en í Svíþjóð.
Heimildir: Hagstofur Íslands, Noregs og Svíþjóðar.