Þrír stjórnarmenn lífeyrissjóða stíga til hliðar vegna nýrra reglna SA
Reglur um skipan fulltrúa SA í stjórnir lífeyrissjóða voru settar og samþykktar af stjórn í upphafi árs til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra, grun um hagsmunaárekstra og til að tryggja óhæði stjórnarmanna lífeyrissjóða.
Það er ekkert svigrúm í reglum SA til undantekninga.
Til að girða fyrir mögulega hagsmunaárekstra hafa tveir stjórnarmenn í Lífeyrissjóði verzlunarmanna og einn stjórnarmaður í Birtu lífeyrissjóði sagt sig úr stjórnum sjóðanna frá og með deginum í dag. Þetta gera stjórnarmennirnir að eigin frumkvæði vegna þess að þeir sitja einnig í stjórnum skráðra hlutafélaga sem samræmist ekki nýjum reglum SA sem tóku gildi 1. janúar 2017.
Það er ljóst að betur hefði mátt standa að kynningu á umræddum breytingum til stjórnarfólks af hálfu Samtaka atvinnulífsins og eru hlutaðeigandi beðnir velvirðingar á því.
Aðalatriðið er að faglega er staðið að skipan stjórnarmanna í lífeyrissjóði af hálfu SA. Nýjar reglur gefa hæfum einstaklingum tækifæri á að bjóða fram krafta sína til starfa í stjórnum lífeyrissjóða með hagsmuni sjóðsfélaga að leiðarljósi. Lífeyrissjóðirnir og viðfangsefni þeirra eru gríðarlega mikilvæg fyrir framtíðarvelferð þjóðarinnar.
Með þessum aðgerðum stíga Samtök atvinnulífsins og fulltrúar tilnefndir af SA í stjórnir lífeyrissjóða mikilvægt skref til að tryggja fyrirmyndar stjórnarhætti sjóðanna.
Tengt efni:
Reglur um tilnefningar Samtaka atvinnulífsins í stjórnir lífeyrissjóða