Þríhliða samkomulag í Danmörku um skert starfshlutfall og bætur á móti
Aðilar vinnumarkaðarins og danska ríkið hafa skrifað undir samning sem kemur til viðbótar gildandi kjarasamningum og er ætlað að draga úr fækkun starfa. Samkvæmt samkomulaginu geta fyrirtæki deilt vinnumagni milli starfsmanna. Úrræðið stendur öllum fyrirtækjum til boða og er viðbót við fyrri aðgerðir vegna kórónukreppunnar.
Úrræðið gerir fyrirtækjum kleift að viðhalda ráðningarsambandi við starfsmenn með lækkun starfshlutfalla. Starfsmenn lækka í launum í samræmi við starfshlutfall en fá greiddar atvinnuleysisbætur vegna skerta hlutfallsins. Það skerðir ekki áunninn rétt þeirra til atvinnuleysisbóta og fyrirtækin bera hluta kostnaðarins.
Að mati dönsku Samtaka atvinnulífsins mun nýja úrræðið draga úr fækkun starfa. Það sé gott verkfæri fyrir fyrirtæki sem telja samdrátt eftirspurnar vera tímabundinn. Sveigjanleiki þess sé þeim mikilvægur, þar sem unnt er að undanskilja lykilstarfsfólk og því þurfi ekki að skerða vinnutíma allra starfsmanna.