Þriðjungur fyrirtækja telur aðgerðir stjórnvalda sitt helsta vandamál
Rúmlega þriðjungur aðildarfyrirtækja Samtaka atvinnulífsins telur aðgerðir stjórnvalda vera helsta vandamál fyrirtækisins við núverandi aðstæður og tæplega fjórðungur til viðbótar setur aðgerðir stjórnvalda í annað sæti meðal helstu vandamála þeirra. Þetta kemur fram í nýrri könnun SA á rekstrarhorfum fyrirtækja sem gerð var dagana 6.-11. október 2011. Um 70% fyrirtækja í sjávarútvegi telja aðgerðir stjórnvalda vera helsta vandamál fyrirtækisins og um 40% í verslun og þjónustu.
Skuldir og hár fjármagnskostnaður er annað helsta vandamál fyrirtækjanna, en fjórðungur þeirra setur skuldir og fjármagnskostnað í fyrsta sæti og þriðjungur til viðbótar í annað sæti. Rúmlega fjögur af hverjum tíu fyrirtækjum (42%) setja litla eftirspurn og erfiðan markað í fyrsta og annað sæti yfir helstu vandamál fyrirtækisins og um þrjú af hverjum tíu setja skattamál í þau sæti.
Fyrirtækin voru einnig beðin um að raða eftir mikilvægi fimm af ellefu skilaboðum til stjórnvalda um brýnustu úrlausnarefnin. Þau skilaboð voru eftirfarandi: Auka fjárfestingar í atvinnulífinu, greiða fyrri stórframkvæmdum, auka útflutningstekjur, afnema gjaldeyrishöft, ná rekstrarafgangi í ríkisfjármálum, veita sjávarútvegi traust starfsskilyrði, lækka vexti, minnka atvinnuleysi, lækka skatta, stöðva skuldasöfnun lífeyrissjóða hins opinbera og jafna réttindi á almennum og opinberum vinnumarkaði og bæta vinnumiðlun fyrir atvinnulausa.
Í svörunum birtast þær áherslur sem standa fyrirtækjunum næst þessa stundina. Flest töldu brýnasta úrlausnarefni stjórnvalda við núverandi aðstæður að stuðla að auknum fjárfestingum í atvinnulífinu og greiða fyrir stórframkvæmdum (39%). Í næstu sætum með jafna áherslu (12% hver) eru úrlausnarefni eins og að lækka vexti, lækka skatta og veita sjávarútvegi traust starfsskilyrði.
Aðrar áherslur eru almennari og margar hverjar fjarlægari núverandi starfsemi eins og að afnema gjaldeyrishöft (7%), auka útflutningstekjur (6%) og minnka atvinnuleysi (4%). Um helmingur fyrirtækja í iðnaði telja brýnast að stjórnvöld stuðli að auknum fjárfestingum í atvinnulífinu og greiði fyrir stórframkvæmdum. Þá telja tvö af þremur fyrirtækjum í sjávarútvegi brýnast að stjórnvöld veiti sjávarútvegi traust starfsskilyrði.
----------------------
Um könnunina
Könnunin var rafræn og gerð meðal aðildarfyrirtækja SA dagana 6. - 11. október 2011 en framkvæmd hennar var í höndum Outcome hugbúnaðar ehf. Markmiðið með könnuninni var að fá skýrari mynd af horfunum framundan í íslensku atvinnulífi.
Könnunin var send til 1.684 fyrirtækja.Fjöldi svarenda var 482 og svarhlutfall því 29%. 30.000 starfsmenn starfa hjá þeim fyrirtækjum sem þátt tóku í könnuninni og er áætlað að 83.000 manns starfi um þessar mundir í þeim atvinnugreinum sem könnunin nær yfir.