Þriðja vaxtalækkunin á þremur mánuðum
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur lækkað stýrivexti úr 3,75% í 3,5%. Þetta er þriðja vaxtalækkunin á þremur mánuðum en í heild hafa stýrivextir lækkað um 1 prósentustig frá því maí. Meginmarkmið Lífskjarasamningsins 2019-2022 er að launahækkanir samræmist stöðugu verðlagi og skapi skilyrði til að lækka vexti. Horfur um hjaðnandi verðbólgu skapa svigrúm til að lækka stýrivexti enn frekar á næstunni.
Íslenskt efnahagslíf stendur á tímamótum. Eftir átta ár af samfelldum hagvexti spáir Seðlabankinn því að hagvöxtur í ár verði lítillega neikvæður. Við slík vatnaskil þarf peningastefnan og hagstjórn að taka mið af breyttum aðstæðum. Útlit er fyrir að verðbólga hjaðni hraðar en áður var gert ráð fyrir og að hún verði komin að verðbólgumarkmiði á fyrri hluta næsta árs.
Staða efnahagsmála hefur tekið stakkaskiptum á skömmum tíma. Í upphafi árs spáðu flestir greiningaraðilar því að hagvöxtur á árinu 2019 yrði nær 2% en í dag spá þeir flestir samdrætti í landsframleiðslu. Seðlabankinn gerir ráð fyrir að samdrátturinn verði 0,2%. Þessi snarpi viðsnúningur á efnahagshorfum mun reyna á þanþol margra fyrirtækja sem á sama tíma þurfa að standa straum af hækkandi launakostnaði. Vaxtalækkunin í morgun er mikilvæg og til þess fallin að styðja við íslenskt atvinnulíf í því krefjandi rekstrarumhverfi sem við blasir.
Það eru þó blikur á lofti víða og efnahagshorfur í mörgum nágrannaríkjum hafa breyst til hins verra. Bandaríski seðlabankinn lækkaði t.a.m. stýrivexti sína í fyrsta skipti í áratug í júlí sl. Á sama tíma er fastlega gert ráð fyrir að evrópski seðlabankinn lækki stýrivexti enn frekar í september nk. en meginvextir bankans eru nú þegar neikvæðir og takmörk fyrir því hversu mikið peningastefna getur mildað niðursveiflu í Evrópu. Líkt og sést á neðangreindri mynd hefur Seðlabanki Íslands þó verulegt svigrúm til að lækka stýrivexti áfram og draga þannig úr aðhaldi peningastefnunnar, en á mælikvarða raunstýrivaxta er aðhaldið töluvert.
Aðhaldið verulegt í bankakerfinu
Þegar aðhald peningastefnunnar er til umræðu er mikilvægt að horft sé til þeirra stjórntækja sem Seðlabankinn hefur í vopnabúri sínu. Í ljósi þessa vekur athygli að í rökstuðningi peningastefnunefndar á vaxtaákvörðunarfundum er nánast undantekningarlaust rætt um aðhald peningastefnunnar út frá raunstýrivaxtastiginu einu saman en ekkert minnst á önnur stjórntæki sem eru í notkun og hafa áhrif á útlánavexti og skuldsetningu heimila og fyrirtækja.
Hér má nefna háar kröfur um eiginfjárauka í bankakerfinu. Áhrifin eru þau að útlánageta bankanna verður minni og útlánavextir hærri en ella. Ákveðið hefur verið að hækka eiginfjárauka þriggja stærstu viðskiptabankanna enn frekar í tveimur skrefum, fyrri hækkunin kom fram í maí sl. og sú seinni verður í janúar 2020. Er þessi hækkun óheppilega tímasett í miðri niðursveiflu og dregur enn frekar úr útlánagetu bankanna og versna þar með þau vaxtakjör sem viðskiptavinum bjóðast.
Annað dæmi sem nefna má eru hinir háu sértæku skattar sem lagðir eru á bankakerfið. Hvergi innan Evrópu er hærri skattalagning á fjármálafyrirtæki en á Íslandi. Í vor tilkynntu stjórnvöld að þau myndu fresta lækkun bankaskattsins sem voru veruleg vonbrigði enda hefur slík skattheimta einnig áhrif á útlánavexti til fyrirtækja og heimila.
Hagkerfið er að kólna og mikilvægt að í umræðu um hið peningalega aðhald séu allir mælikvarðar teknir til skoðunar þannig að tryggt sé að ekki sé verið að kæla hagkerfið of hratt og of mikið í miðri niðursveiflu. Hrein ný útlán bankakerfisins til fyrirtækja drógust saman um rúmlega 40% á fyrstu sjö mánuðum ársins miðað við sama tíma í fyrra og hrein ný útlán til heimila um rúmlega 5%. Það er áhyggjuefni og gæti haft veruleg áhrif á fjárfestingu og nýsköpun í landinu og stuðlað að enn dýpri niðursveiflu en ella.