Þörf fyrir raun-, tækni- og verkfræðimenntaða
Menntakönnun SA sem gerð var í janúar 2013 staðfestir nær helmingi meiri þörf atvinnulífsins fyrir raun-, tækni- og verkfræðimenntaða en aðra háskólamenntun. Fram kemur að fyrirtæki, sem telja sig hafa þörf á að bæta við háskólamenntuðum starfsmönnum á næstu þremur árum, þurfa jafnmargt fólk með raun-, tækni- og verkfræðimenntun og alla aðra háskólamenntun. Tæpur helmingur fyrirtækjanna í könnuninni telja sig þurfa fleiri háskólamenntaða starfsmenn.
Áhugavert er að skoða tölur Hagstofunnar um útskriftarnema í háskólum í þessu ljósi. Brautskráðir í raunvísindum, stærðfræði tölvunarfræði, verkfræði og mannvirkjagerð voru 16% útskrifaðra 2010 og 18% 2011.
Vísbendingar eru um ákveðna mettun í þörf atvinnulífsins fyrir háskólamenntaða starfsmenn í könnuninni. Hér virðist vera sama þróun og í Evrópu, samkvæmt spá sem gerð var fyrir flest Evrópulönd í fyrra hefur efnahagskreppa undanfarinna ára valdið því að framboð á háskólamenntuðum er í mörgum löndum meira en eftirspurnin. Þetta er þó misjafnt eftir greinum, eins og víðar stunda of fáir í Evrópu nám í vísindum, tækni, verkfræði og stærðfræði. Í spánni kemur fram að menntunarstig á vinnumarkaði í Evrópu muni hækka, háskólamenntuðum fjölga og þeim sem hafa einungis grunnmenntun fækka. Þar kemur einnig fram að nær helmingur starfa sem verða í boði fram til ársins 2020 í Evrópu eru störf þar sem krafist er hagnýtrar sérhæfðra starfsmenntunar á framhaldsskólastigi.
Núverandi staða
Tæpur þriðjungur (28%) fyrirtækjanna í menntakönnun SA hafa enga háskólamenntaða starfsmenn í þjónustu sinni, tæpur helmingur (44%) einn til fjóra og tæpur þriðjungur (29%) fimm eða fleiri.
Fram kemur að fjórðungur fyrirtækjanna eru með engan eða einn iðn- og starfsmenntaðan og rúmlega 40% fyrirtækja eru með fimm eða fleiri. Fjórðungur fyrirtækjanna eru með enga ófaglærða starfsmenn og tæp 40% þeirra með fimm eða fleiri.
Þörf á næstum 12 mánuðum
Einungis 35% fyrirtækjanna telja þörf fyrir fleiri háskólamenntaða starfsmenn á næstu 12 mánuðum. Yfir 80% þeirra telja að þau þurfi ýmist engan (65%) eða einn (16%) háskólamenntaðan starfsmann til viðbótar og einungis 4% sjá fram á að þurfa fimm eða fleiri. Samanvegið hyggjast fyrirtækin ráða tæplega einn háskólamenntaðan starfsmann að jafnaði.
Viðbótarþörf fyrir iðn- eða starfsmenntaða næstu 12 mánuði er meiri en fyrir háskólamenntaða starfsmenn þar sem tæplega helmingur þeirra (46%) áformar fjölgun þeirra. Um 30% fyrirtækjanna þurfa einn (17%) eða tvo (13%) og tæp 6% fimm menn eða fleiri. Samanvegið hafa fyrirtækin að jafnaði þörf fyrir að ráða fólk með þessa menntun í tæplega eitt og hálft stöðugildi. Viðbótarþörfin virðist minnst fyrir ófaglærða þar sem 70% fyrirtækjanna sjá ekki fram á fjölgun þeirra. En þar sem tiltölulega hátt hlutfall þeirra þarf margra ófaglærða (7% hyggjast ráða 5 eða fleiri) fæst sú niðurstaða að samanvegin þörf fyrir ófaglærða er svipuð og fyrir iðn- og starfsmenntaða.
Viðbótarþörf á næstu þremur árum
Rúmlega helmingur fyrirtækjanna (52%) áformar ekki fjölgun háskólamenntaðra á næstu þremur árum og tæpur þriðjungur sér fram á fjölgun um 1-2. Einungis 9% sjá fram á að háskólamenntuðum fjölgi um fimm eða fleiri. Samanvegið telja fyrirtækin að jafnaði þurfa 1,7 háskólamenntaðan starfsmann til viðbótar á næstu þremur árum.
Þörfin er meiri fyrir starfsfólk með iðn- og starfsmenntun þar sem tæp 60% fyrirtækja telja þörf fyrir fjölgun þeirra á næstu þremur árum, þar af tæp 20% um einn, 30% um 2-4 og 10% um fimm eða fleiri. Fyrirtækin sjá þannig fram á þörf á að bæta við rúmlega tveimur iðn- og starfsmenntuðum að jafnaði á næstu þremur árum. Viðbótarþörf fyrir ófaglærða starfsmenn á næstu þremur árum virðist minnst, þar sem 55% fyrirtækja áforma ekki fjölgun þeirra, en 5% þeirra sjá fram á umtalsverða fjölgun ófaglærðra, því verður samvegin eftirspurn nær tvö og hálft starf að jafnaði á næstu þremur árum. Þörf fyrir ófaglært starfsfólk á næstu þremur árum verður samkvæmt því meiri en þörf fyrir starfsfólk með iðn- og starfsmenntun eða háskólamenntun á næstu þremur árum.
Fyrirvari um túlkun
Þann fyrirvara verður að setja við túlkun þessara niðurstaðna að fyrirtækin voru einungis spurð um þörf fyrir fjölgun starfsmanna en ekki hugsanlega fækkun þeirra. Af þeir ástæðu er óvarlegt að túlka niðurstöðurnar með þeim hætti að þær gefi til kynna þróun heildareftirspurnar á almennum vinnumarkaði. Niðurstöðurnar gefa hins vegar vísbendingar um þróun eftirspurnar eftir mismunandi faghópum á allra næstu árum.
Um könnunina
Könnunin var vefkönnun og var framkvæmd hennar í höndum Outcome hugbúnaðar ehf. Hún fór fram á tímabilinu 8.-17. janúar 2013 og voru spurningar 14. Í úrtaki voru 1.259 aðildarfyrirtæki Samtaka atvinnulífsins og svöruðu 345, eða sem nemur 27,4%. Niðurstöður voru greindar eftir aðildarfélögum SA og stærð fyrirtækja. Svarendur skiptust þannig að rúmur helmingur þeirra var félagsmaður SI, 15-17% í SAF og SVÞ, og 2-6% í Samorku, SFF, SF og LÍÚ. Stærðardreifing svarenda var mjög svipuð og í úrtakinu eins og fram kemur í meðfylgjandi töflu.