Þolinmæði aðila vinnumarkaðarins á þrotum - fundur með ríkisstjórn á morgun
Kjaraviðræður á almennum vinnumarkaði eru nú í biðstöðu. Samtök atvinnulífsins greindu ríkisstjórn Íslands frá því í gærkvöld að ekki yrði hafin lokaatlaga að því að ljúka kjarasamningum í vikunni eins og til stóð þar sem svo mörg stór mál standi út af í viðræðum við ríkisstjórnina að slíkt væri ekki mögulegt. Þolinmæði aðila vinnumarkaðarins er nú á þrotum og kalla bæði SA og ASÍ eftir aðgerðum ríkisstjórnarinnar. SA og ASÍ funda með ríkisstjórninni á morgun til að meta næstu skref.
Um 15 þúsund eru nú án vinnu á Íslandi og hefur þriðja hvert heimili orðið fyrir barðinu á atvinnuleysinu frá hruni. Þúsundir hafa yfirgefið landið og hafa SA bent á að ef hjól atvinnulífsins fari ekki að snúast af krafti bíði þjóðarinnar allt að 30 milljarða króna gat í næstu fjárlögum sem verði að brúa með enn meiri skattahækkunum og niðurskurði á opinberri þjónustu. Þetta vilja SA forðast en það er á valdi ríkisstjórnarinnar að tryggja atvinnulífinu hagstæð rekstrarskilyrði næstu misserin til að fyrirtækin geti dafnað, atvinnuleysið minnkað og lífskjör fólks batnað á ný.
Fjallað var um stöðu kjaraviðræðna í fréttatímum Stöðvar 2 og RÚV í kvöld og má horfa á fréttir þeirra hér að neðan. Í viðtali við Stöð 2 varaði Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, við upplausn á vinnumarkaði með verkföllum og tilheyrandi skaða fyrir samfélagið ef ekki takist að gera kjarasamninga til þriggja ára. Staðan sé grafalvarleg en bæta þurfi almenn rekstrarskilyrði atvinnulífsins, ná niðurstöðu varðandi framtíð fiskveiðistjórnunarkerfisins og koma stórum framkvæmdum á skrið s.s. í Helguvík, Þingeyjarsýslum og stærri vegaframkvæmdum.
Í viðtali við RÚV sagði Vilhjálmur SA hafa gefist upp á aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar í stórum málum sem skipti sköpum varðandi möguleikann á að gera kjarasamninga til lengri tíma, t.d. varðandi almenn starfsskilyrði, gjaldeyrishöft eigi að vera hér næstu fimm árin, ekkert sé að gerast í sjávarútvegsmálunum, og ekkert bendi til þess að stórframkvæmdir séu að verða að veruleika. Ef allt fari á versta veg verði uppnám á vinnumarkaði, hver höndin upp á móti annarri, og horft verði til skammtímasamninga sem skili engu.
Sjá nánar:
Umfjöllun fréttastofu Stöðvar 2, 29. mars 2011
Umfjöllun fréttastofu RÚV, 29. mars 2011
Tengt efni: