Þjóðhagsráð kemur saman
Fulltrúar ríkisstjórnar Íslands, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Samtaka atvinnulífsins og Seðlabanka Íslands komu saman í gær á fyrsta fundi Þjóðhagsráðs. Stofnun Þjóðhagsráðs er í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá því í maí í fyrra, en hún var gefin út til að greiða fyrir gerð kjarasamninga. Einnig er kveðið á um stofnun Þjóðhagsráðs í rammasamkomulagi aðila á vinnumarkaði frá því í október. Forsætisráðherra stýrir fundum Þjóðhagsráðs.
„Það er mikilvægt að til sé vettvangur til að skiptast á skoðunum um hvert við stefnum á vinnumarkaði. Hlutverk ráðsins verður að greina stöðuna í efnahagsmálum og ræða samhengi ríkisfjármála, peningastefnu og vinnumarkaðar í tengslum við helstu viðfangsefni hagstjórnar hverju sinni. Þetta er mikilvægur hlekkur í því sem nefnt hefur verið SALEK samkomulagið á vinnumarkaði“, segir Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra.
Samtök atvinnulífsins telja þetta mikilvægt framfaraskref enda hafa samtökin ítrekað bent á að bæta þurfi hagstjórn á Íslandi til að tryggja Íslendingum betri lífskjör. Það kalli á að aðilar vinnumarkaðarins, stjórnvöld og Seðlabankinn vinni betur saman.
„Það er forsenda þess að hér sé hægt að koma á stöðugleika í efnahagslífinu til lengri tíma. Í samanburði samkeppnishæfustu þjóða heims skrapar Ísland botninn þegar litið er til skammtímavaxta, peningastefnu og gjaldmiðilsins,“ segir Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins og bendir á að það sé til mikils að vinna. „Með auknum stöðugleika batna starfsskilyrði fyrirtækjanna, nýsköpun eflist og atvinnulífið styrkist. Ef allir róa í sömu átt mun okkur takast að halda verðbólgu lágri og í framhaldinu að lækka vexti sem eru margfaldir á Íslandi miðað við í nágrannalöndunum. Takist okkur það mun hagur heimilanna vænkast umtalsvert.“
Ríkisstjórn Íslands, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök atvinnulífsins og Seðlabanki Íslands skrifuðu undir stofnskjal nýs Þjóðhagsráðs miðvikudaginn 8. júní. Um Þjóðhagsráð gilda eftirfarandi ákvæði:
- Markmið Þjóðhagsráðs er að styrkja samhæfingu hagstjórnar og ákvarðana á vinnumarkaði. Þjóðhagsráð skal fjalla um stöðu í efnahagsmálum og ræða samhengi opinberra fjármála, peningastefnu og kjaramála í tengslum við helstu viðfangsefni hagstjórnar hverju sinni. Ráðið skal beina umfjöllun sinni sérstaklega að þáttum þar sem samhæfingu er helst ábótavant.
- Þjóðhagsráð tekur ekki ákvarðanir í efnahags- eða kjaramálum og stofnun þess breytir ekki lögbundnum hlutverkum þeirra aðila sem að ráðinu standa.
- Aðilar að Þjóðhagsráði eru forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Seðlabanka Íslands. Heildarsamtök launafólks sem aðild eiga að rammasamkomulaginu hverju sinni geta gerst aðilar að Þjóðhagsráði. Fjölga skal í Þjóðhagsráði til að tryggja aðkomu allra stjórnmálaflokka sem sitja í ríkisstjórn.
- Forsætisráðherra stýrir fundum Þjóðhagsráðs. Hann boðar jafnframt fundi ráðsins í samráði við aðila þess. Halda skal fundi í ráðinu að lágmarki tvisvar á ári og skulu þeir boðaðir með minnst tveggja vikna fyrirvara. Hver aðili að Þjóðhagsráði getur að hámarki tekið tvo starfsmenn sína með á fundi ráðsins.
- Fundargerð funda Þjóðhagsráðs er opinbert skjal. Hún skal birtast á heimasíðum aðila ráðsins á íslensku og ensku svo fljótt sem unnt er eftir hvern fund. Forsætisráðuneytið skal senda aðilum ráðsins fundargerð til samþykktar. Í fundargerð skal greina frá dagskrá, áherslum í umræðu um hvern dagskrárlið og því sem fram kom um samhæfingu stefnu í opinberum fjármálum, peninga- og kjaramálum.
- Undirbúningshópur, skipaður einum fulltrúa samkvæmt tilnefningu frá hverjum aðila Þjóðhagsráðs, undirbýr fundi ráðsins. Hópurinn skal í upphafi hvers árs leggja fram áætlun um starfsemi ráðsins á árinu og leggja fyrir aðila þess. Í áætluninni skal koma fram fjöldi funda, tímasetning þeirra, dagskrá, undirbúningur funda og kostnaður.
- Starfsemi Þjóðhagsráðs skal tekin til endurskoðunar fyrir árslok 2018. Jafnframt er heimilt að endurmeta starfsemi ráðsins ef rammasamkomulagi aðila á vinnumarkaði er slitið.