Þjóðarsátt fyrir 30 árum markaði vatnaskil

Aðdragandi Þjóðarsáttasamningsins 2. febrúar 1990 var langur. Í tvo áratugi höfðu landsmenn búið við óðaverðbólgu sem náði hámarki árið 1983, þegar hækkun verðlags milli ára mældist 84% og verðbólguhraðinn innan ársins fór yfir 100%. Laun höfðu árum saman hækkað samkvæmt vísitölu á þriggja mánaða fresti, um allt að 15% í hvert sinn.

Afskipti stjórnvalda af kjarasamningum voru tíð og árið 1983 bönnuðu þau verðtryggingu launa með lögum. Árið 1986 gerðu ASÍ og VSÍ (forveri SA), í samstarfi við stjórnvöld, tilraun til að stuðla að efnahagslegum stöðugleika en hún rann út í sandinn. Árið 1988 voru enn sett lög á kjarasamninga sem takmörkuðu launhækkanir en árið eftir voru gerðir óraunhæfir kjarasamningar, við mjög  erfiðar efnahagsaðstæður, sem skiluðu launafólki minna en engu því gengi krónunnar féll í kjölfarið um 20%. Á tímabilinu 1980-1989 hækkuðu laun að meðaltali um 1.300% en verðlag um tæp 1.500% þannig að kaupmáttur launa minnkaði um 11%. Vart þarf að taka fram að verðbólgan lék þá verst sem minnst höfðu milli handanna.

Í viðræðum VSÍ við stjórnvöld haustið 1989 var samstaða um að almenni vinnumarkaðurinn markaði stefnu í kjaramálum sem ríki og sveitarfélög myndu fylgja.

Í aðdraganda Þjóðarsáttarinnar voru fólk og fyrirtæki orðin örmagna í endalausu kapphlaupi við verðbólguna, stjórnvöld ráðalaus og aðgerðir þeirra gegn henni engu skilað. Fólk var þrúgað af sífelldum hækkunum verðtryggðra íbúðalána og þungri greiðslubyrði af himinháum skammtímavöxtum. Útilokað var að gera raunahæfar fjárhagsáætlanir þar sem aðstæður gátu gerbreyst á augabragði og forsendur ákvarðana kollvarpast. Rekstur fyrirtækja markaðist af skammtímahugsun, að eiga fyrir næstu launaútborgun og greiðslu skatta, en langtímahagsmunir viku.

Við þessar nöturlegu aðstæður fór fram aðalfundur VSÍ þann 6. júní 1989. Þar var Einar Oddur Kristjánsson, útvegsmaður og fiskverkandi á Flateyri, kjörinn formaður VSÍ og Gunnar I. Birgisson, verktaki í Kópavogi, varaformaður. Nýrrar forystu biðu knýjandi verkefni og þar voru efnahagsumbætur og skynsamir kjarasamningar efst á blaði. Umræður um stefnubreytingu fór vaxandi og að helstu forgangsmálin væru að koma böndum á verðbólguna og verja störfin. Í viðræðum VSÍ og ASÍ á síðustu mánuðum ársins 1989 náðist samstaða um helstu markmið sem voru að kveða niður verðbólgu, sporna gegn  atvinnuleysi, skapa skilyrði fyrir vaxtalækkun og  verja kaupmátt sem samrýmst gæti þessum markmiðum.

Í viðræðum VSÍ við stjórnvöld haustið 1989 var samstaða um að almenni vinnumarkaðurinn markaði stefnu í kjaramálum sem ríki og sveitarfélög myndu fylgja. Þetta hafði lengst af verið stefnan, en ríkisvaldið brá út af þeirri leið vorið 1989, með mjög slæmum afleiðingum, sem gerði samningsgerðina enn snúnari.

Fyrir Þjóðarsáttina voru skammtímasamningar reglan og þjóðfélagið í samfelldu uppnámi vegna kjaradeilna. Íslendingar voru heimsmeistarar í verkföllum á áttunda og níunda áratug síðustu aldar og tjón vegna verkfalla gífurlegt.

Augljóst var að hóflegar launabreytingar voru meginforsenda þess að markmiðin næðust. Auk þess þurftu að koma til víðtækar aðgerðir svo ýmsir þættir efnahagslífsins samræmdust nýju og gjörbreyttu umhverfi. Atvinnulífið hafði aðlagast óðaverðbólgu um áratugaskeið með nánast sjálfvirkum verðhækkunum í kjölfar mikilla og tíðra launabreytinga og gengisfellinga. Þetta þurfti að breytast. Með þrotlausri vinnu og skýrri sýn tókst að ná samstöðu um gjörbreytta leið við gerð  og framkvæmd kjarasamninga. Auk heildarsamtaka launafólks og vinnuveitenda komu fulltrúar BSRB, bænda,  viðskiptabanka og stjórnvalda að borðinu.

Allir þurftu að leggja sitt af mörkum til að skapa sátt um þessa stefnubreytingu. Fór svo að full samstaða náðist með helstu heildarsamtökum vinnumarkaðarins, bönkum, bændum og stjórnvöldum að taka þátt í samræmdum aðgerðum til að ná niður verðbólgu og koma á efnahagslegum stöðugleika.

Þjóðarsáttasamningurinn gilti frá undirskriftardegi 1. febrúar 1990 til 15. september 1991, eða í tæplega 20 mánuði. Umsamin launahækkun á samningstímanum var 10% en hækkaði í tæplega 12% vegna rauðra strika sem miðuðu við hækkun verðlags umfram verðbólguspár samningsaðila. BSRB og ríkið gengu frá nýjum kjarasamningi á sömu nótum daginn eftir. Gert var ráð fyrir 6-7% verðbólgu á fyrra ári samningsins, sem varð raunin þrátt fyrir efasemdir ýmissa álitsgjafa, og var það í fyrsta sinn í áratugi að verðbólga mældist ekki í tveggja stafa tölu.

Þjóðarsáttin markaði upphaf nýrrar nálgunar við gerð kjarasamninga hér á landi. Á liðnum 30 árum hafa verið gerðir fjölmargir heildarkjarasamningar á almennum vinnumarkaði og samningstíminn lengst mikið, sem hefur skapað aukið öryggi fyrir fólk og fyrirtæki. Fyrir Þjóðarsáttina voru skammtímasamningar reglan og þjóðfélagið í samfelldu uppnámi vegna kjaradeilna. Íslendingar voru heimsmeistarar í verkföllum á áttunda og níunda áratug síðustu aldar og tjón vegna verkfalla gífurlegt.

Það þurfti áræðni, einbeittan vilja og úthald til að breyta hefðbundnum vinnubrögðum. Einar Oddur Kristjánsson hafði þessa eiginleika. Hann talaði tæpitungulaust og kjarnyrt alþýðumál og var óþreytandi við að sannfæra aðra um að þetta væri eina færa leiðin út úr ógöngunum. 

Það verður aldrei óumdeilt að gera mönnum mishátt undir höfði þegar margir leggja hönd á plóg, en á engan er hallað þegar fullyrt er að Einar Oddur, Ásmundur Stefánssonar, forseti ASÍ, Þórarinn V. Þórarinsson, framkvæmdastjóri VSÍ og Guðmundur J. Guðmundsson, formaður Dagsbrúnar og Verkamannasambandsins hafi borið hitann og þungann af því að sannfæra landsmenn um að fara þá leið sem fólst í Þjóðarsáttinni 1990. En þó má ekki vanmeta þátt Gunnars I. Birgissonar og Ögmundar Jónassonar en framlag þeirra skipti sköpum.


Þjóðin bar gæfu til þess fyrir 30 árum að taka upp skynsamlegri vinnubrögð en áður við gerð kjarasamninga. Það bar á endanum ríkulegan ávöxt sem 85% kaupmáttaraukning launa, og 150% aukning kaupmáttar lágmarkslauna, frá árinu 1990 ber órækt vitni um. Það ber okkur, sem síðar tókum við keflinu, að þakka.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 1. febrúar 2020.

Tengt efni:

Svipmynd af sögulegri sátt í Sjónvarpi atvinnulífsins