Þjóðarsátt?

Þó óútskýrður launamunur kynjanna hafi ekki reynst marktækur í rannsókn velferðarráðuneytisins þá er það staðreynd að konur fá að meðaltali greidd lægri laun en karlar. Kemur það ekki til vegna þess að kynin fái ekki jafnt greitt fyrir sambærilegt starf heldur vegna starfsvals þeirra.

Til að útrýma launamun kynjanna hefur verið lögð fram þingsályktunartillaga um þjóðarsátt til að bæta kjör kvennastétta á opinberum markaði. Orðrétt stendur: „ … verði gerður sérstakur kjarasamningur um leiðréttingu á kjörum þessara stétta. Samningurinn feli í sér sérstakar hækkanir til viðbótar við almennar hækkanir kjarasamninga á vinnumarkaði.“

Með hliðsjón af þungum rekstri sveitarfélaga og óverulegum afgangi ríkissjóðs er morgunljóst að sérstök launahækkun fjölmennra opinberra stétta getur að óbreyttu aldrei orðið.
Óljóst er þó hvaða kvennastéttir falla þar undir en látum það liggja milli hluta. Þrátt fyrir fyrrgreindan launamun þá hafa kvennastéttir ekki farið varhluta af kauphækkunum síðustu ára og t.a.m. benti bæjarstjóri Kópavogs á það nýverið að launakostnaður bæjarins hefði vaxið um ríflega 50% frá árinu 2013, 80% starfsmanna bæjarins eru konur.

Með hliðsjón af þungum rekstri sveitarfélaga og óverulegum afgangi ríkissjóðs er morgunljóst að sérstök launahækkun fjölmennra opinberra stétta getur að óbreyttu aldrei orðið. Auðvelt er að skrifa á blað orðið „þjóðarsátt“ en erfiðara að skapa slíka sátt. Ekki verður hún fjármögnuð með auknum skatttekjum sem aldrei hafa verið meiri í sögulegum né alþjóðlegum samanburði. Þjóðarsátt gæti falist í niðurskurði opinberra útgjalda eða að aðrir launþegahópar dragi úr sínum kröfum eða jafnvel taka á sig launalækkun.

Miðað við orðræðu verkalýðsfélaga og ákall um aukin opinber útgjöld verða báðar leiðir að teljast ólíklegar. Raunhæfara skref að sama marki væri að beita sér fyrir kerfisbreytingum hjá opinberum kvennastéttum. Gæti verið að breytt rekstrarform gæti aukið skilvirkni og skapað svigrúm fyrir launahækkanir? Er möguleiki að auka samningsfrelsi þessara stétta? Væri svo slæmt að þeir kennarar sem standa sig vel geti samið um hærri laun, óháð kyni?

Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs SA.

Greinin birtist í Viðskiptablaðinu 2. febrúar 2018.