Það sem enginn sér

Á hverjum degi fara rúmlega tvö hundruð þúsund manns til vinnu á Íslandi. Jafnframt fara ríflega hundrað  þúsund manns dag hvern í skóla þar sem kennarar hvetja nemendur sína áfram til góðra verka. Stundum vinnast litlir sigrar, stundum engir og stundum stórir, en þannig er lífið.

Ísland byggir fámenn þjóð í stóru landi. Kannski hafa íslensku víðernin - og skortur á trjám lengi vel - gert það að verkum að hugur okkar leitar víða fanga. Íslendingar eiga í sínum röðum fólk sem hefur náð langt á fjölmörgum sviðum, jafnvel komið sér í hóp þeirra sem fremst standa í heiminum á hverjum tíma í fagi viðkomandi. Í því samhengi er hægt að nefna fjölmargt fólk í listum, hönnun, íþróttum, iðnaði, viðskiptum og svo mætti áfram telja. Fólk sem á sinn grunn á Íslandi og við fyllumst öll verðskulduðu stolti þegar vel tekst til hjá viðkomandi. Þessir aðilar eru lifandi sönnun þess að með því að setja markið hátt og leggja hug og hjarta í verkefni dagsins má gera góða hluti og ná langt. Svo vinna margir verk sín í hljóði af alúð og natni og eru ekki til umfjöllunar í dægurumræðu fjölmiðlanna. Þeim ber að þakka.

Hávaðinn yfir því sem misferst í samfélaginu er oft ærandi, en gleymum ekki því sem vel er gert og virkar. 

Hvers vegna virkar samfélag okkar? Hvers vegna náum við árangri? Hvers vegna er fjölbreytni í listum, menningu, íþróttum og atvinnulífi svo mikil sem raun ber vitni hér á landi?  Það er vegna samspils þátta sem ekki er áþreifanlegt og fáir tala um. Samspil sem virkar á milli atvinnulífs, hins opinbera, stjórnvalda, kennara, nemenda, fjölskyldna, íþróttafélaga og margra annarra ónefndra almannahreyfinga og þjóðfélagshópa. Samspil fólks sem vill gera heiminn örlítið í betri í dag en hann var í gær og jafnvel hafa örlítið gaman að hlutunum í leiðinni. Samspil sem ekki sést í daglegri önn en er kannski verðmætast af öllu.

Á Íslandi eru margir frumkvöðlar sem eru reiðubúnir til að taka áhættu með hugmyndir sínar, stofna fyrirtæki, leggja eigur sínar undir án þess að vera vissir um hvort þeir muni uppskera síðar. Áður voru það frekar karlar en konur sem lögðu af stað í þessa vegferð en það hefur sem betur fer breyst og nú er áhugi karla og kvenna jafn á því hefja eigin rekstur sem byggist á hugmyndafræði hvers og eins. Með því erum við að njóta krafta allra til fulls en þá þarf um leið að tryggja að fólk geti áfram fundið hugmyndum sínum farveg og uppskorið árangur erfiðis síns þegar vel gengur.

Mennt er máttur og menntun af ólíkum toga er undirstaða árangurs. Áherslur sem hvetja til sköpunargleði munu verða enn mikilvægari en áður, sköpunargleði er forsenda þess að fetaðar séu nýjar slóðir og verkefni leyst sem nú virðast óleysanleg. 

Öll erum við ólík og höfum hvert okkar mismunandi hæfileika og tækifæri. Samtök atvinnulífsins vekja athygli á því að einn af hverjum fimm einstaklingum glímir við lesblindu af einhverju tagi. Glíma við erfiðleika við að lesa, skrifa og reikna. Glíma við erfiðleika við dagleg viðfangsefni sem flestum finnst sjálfgefin. Lesblinda veldur því að stöðugt þarf að takast á við krefjandi áskoranir, bæði í námi og starfi. Þessi stóri hópur er fjölbreyttur með ólíka hæfileika og atvinnulífið þarf á kröftum hans að halda. Á nýju ári verður frumsýnd ný heimildarmynd um lesblindu og leiðir til að takast á við hana. Samtök atvinnulífsins taka þátt í framleiðslu myndarinnar og munu leggja sitt af mörkum til að leggja  þessu mikilvæga málefni lið þannig að þeir sem við lesblindu glíma geti fundið hæfileikum sínum farveg.

Mennt er máttur og menntun af ólíkum toga er undirstaða árangurs. Áherslur sem hvetja til sköpunargleði munu verða enn mikilvægari en áður, sköpunargleði er forsenda þess að fetaðar séu nýjar slóðir og verkefni leyst sem nú virðast óleysanleg. Eitt viðfangsefni af mörgum sem bíður lausnar er samspil manns og umhverfis. Það mun ekki gerast með skyndilausnum heldur verður að leita nýrra leiða og tæknilausna. Við munum öll þurfa að endurskoða daglega hegðun okkar. Þá fyrst sýnum við samfélagsábyrgð í verki.

Hávaðinn yfir því sem misferst í samfélaginu er oft ærandi, en gleymum ekki því sem vel er gert og virkar. Það getum við gert án hávaða og yfirlætis. Byggjum upp í stað þess að rífa niður. Lögum það sem þarf að laga. Gerum betur í dag en í gær. Viðurkennum það sem vel er gert. Stefnum að árangri frekar en athygli.

Megi komandi ár verða okkur farsælt.

Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður Samtaka atvinnulífsins.

Greinin birtist í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins sem kom út 30. desember 2019.