Það er brýnast að lækka skatta
Á toppi hagsveiflunnar á að skapa rými til lækkunar skatta. Það auðveldar fólki að greiða niður húsnæðislán og spara til mögru áranna. Enn og aftur virðast stjórnmálamenn telja að fjármunum landsmanna sé betur borgið í þeirra umsjón en hjá þeim sem afla þeirra. Ríki og sveitarfélög hafa stundað þensluhvetjandi fjármálastefnu síðastliðin ár, skatttekjur hafa þanist út í miklum uppgangi í efnahagslífinu en útgjöld hins opinbera hafa aukist jafnharðan.
Villutrúin er að auknar ráðstöfunartekjur fyrirtækja og heimila hvetji til þenslu en að fjármunir til eyðslu ríkis og sveitarfélaga hafi ekki slík áhrif.
Það er dapurlegt að fjármálaráðherra telji að skattalækkanir séu ekki brýnasta málið nú vegna efnahagsuppsveiflunnar. Það er mikilvægt að minna á að af hverjum 100 krónum sem verða til í efnahagslífinu er 45 krónum ráðstafað af hinu opinbera skv. Hagstofu Íslands. Útsvarstekjur sveitarfélaga hafa aukist um 53 milljarða á fjórum árum en hverri krónu er eytt jafnharðan. Tekjur af fasteignagjöldum eru sér kapítuli. Staðan er þessi: Nánast hvergi innan OECD dregur hefur hið opinbera hærri skatttekjur en á Íslandi. Í núverandi uppsveiflu hefur nánast engin áhersla verið á aðhald eða forgangsröðun í ríkisrekstri heldur fyrst og fremst á ráðstöfun þeirra gífurlegu fjármuna sem hinu opinbera hefur áskotnast.
Skattahækkanir á einstaklinga og fyrirtæki vörðuðu leiðina að hallalausum rekstri ríkissjóðs. Þær skattahækkanir standa flestar óhreyfðar. Í fjárlögum 2018 eru boðaðar frekari skattahækkanir en engar skattalækkanir eru í hendi. Ekki verður betur séð en á fyrstu fimmtíu dögum nýrrar ríkisstjórnar sé enn frekar verið að festa Ísland í sessi sem háskattaríki. Villutrúin er að auknar ráðstöfunartekjur fyrirtækja og heimila hvetji til þenslu en að fjármunir til eyðslu ríkis og sveitarfélaga hafi ekki slík áhrif.
Skilaboð atvinnulífsins til stjórnvalda eru einföld. Í einni lengstu uppsveiflu Íslandssögunnar þarf að draga úr útgjöldum til að lækka álögur á landsmenn. Slík nálgun reynir bæði á framtíðarsýni og stefnufestu. Að halda áfram á sömu braut mun óhjákvæmilega kalla á sársaukafullan niðurskurð þegar sömu tekjustofnar dragast saman í næstu niðursveiflu. Rétt‘upp hönd sá sem trúir því að í niðursveiflunni skapist dauðafæri til skattalækkana.
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins
Greinin birtist í Morgunblaðinu 17. janúar 2018