Tekjuskattur á hagnað fyrirtækja lækki á ný

Tekjuskattur, sem lagður er á hagnað fyrirtækja á Íslandi, var 18% frá árinu 2002 en var lækkaður í 15% árið 2008. Sú lækkun stóð aðeins í eitt ár. Hlutfallið var hækkað aftur í 18% árið 2009 og í 20% ári síðar. Í nýju riti Samtaka atvinnulífsins, "Ræktun eða rányrkja?", eru stjórnvöld hvött til þess að lækka tekjuskatthlutfall fyrirtækja í 15% á komandi árum.

Tekjuskattur á hagnað fyrirtækja er ekki veigamikil tekjulind fyrir ríkissjóð, en samkvæmt fjárlagafrumvarpi 2013 er hann áætlaður nema 35,4 ma.kr. eða 7% af skatttekjum ríkisins. Tekjuskatturinn, ásamt skattlagningu arðs, hefur hins vegar áhrif á fjárfestingar og atvinnusköpun. Letjandi áhrif þessara skatta á efnahagslífið dregur úr vexti mikilvægustu tekjustofna ríkisins sem eru skattar á vöru og þjónustu og tekjuskattar einstaklinga.

Tekjuskattur lögaðila hefur lækkað jafnt og þétt í OECD-ríkjunum. Á þessu ári er hlutfallið 25,4% að meðaltali og hefur lækkað um 5 prósentustig á síðastliðnum 10 árum og um 15% síðan 1990. Á Íslandi hafa tekjur hins opinbera af tekjuskatti fyrirtækja verið töluvert undir meðaltali OECD-ríkjanna um langt árabil, einnig þegar tekjuskatthlutfallið var mun hærra, sem er vitnisburður um að hagnaður fyrirtækja á Íslandi sé hlutfallslega minni en víðast annars staðar.

Lágt hlutfall tekjuskatts á fyrirtæki hvetur til fjárfestinga og atvinnusköpunar og skapar svigrúm til nýsköpunar og þróunar. Lækkun tekjuskattshlutfalls fyrirtækja ætti ekki að lækka tekjur ríkisins því hún stuðlar að stækkun annarra skattstofna. Að auki eru aðstæður til atvinnurekstrar á ýmsan hátt örðugri hér en hjá samkeppnisaðilum vegna óstöðugleika í efnahagsmálum, hás fjármagnskostnaðar, smæðar markaðarins og fjarlægðar frá erlendum mörkuðum.

Lækkun tekjuskatts fyrirtækja er mikilvæg í ljósi þess að fjárfestingar atvinnulífsins hafa um skeið verið allt of litlar til að stuðla að viðunandi hagvexti og atvinnusköpun. Einnig er mikilvægt að tekjuskattshlutfall á Íslandi sé aðlaðandi fyrir erlenda fjárfesta en erlendar fjárfestingar hafa verið afar takmarkaðar. Við ákvörðun tekjuskatthlutfallsins er mikilvægt að litið sé til langs tíma þannig að Ísland geti skapað sér orðspor sem aðlaðandi fjárfestingarkostur.

Í Bretlandi er stefnt að lækkun tekjuskatts á fyrirtæki í 22% á næstu tveimur árum.Sænska ríkisstjórnin kynnti fyrir skömmu áform um lækkun tekjuskatts á fyrirtæki úr 26,4% í 22% frá áramótum og skattaafslátt fyrir einstaklinga sem fjárfesta í atvinnulífinu. Forsætisráðherra Svíþjóðar sagði af þessu tilefni að tekjuskattur á fyrirtæki væri afar skaðlegur skattur og samkeppnishæft skattaumhverfi skipti sköpum um hvort fyrirtæki fjárfestu í atvinnustarfsemi í Svíþjóð eða erlendis. Það sama gildir hér á landi.

Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri SA.

Greinin birtist í Viðskiptablaðinu 29. nóvember 2012.

Tengt efni:

SMELLTU HÉR TIL AÐ SÆKJA RIT SA UM SKATTAMÁL ATVINNULÍFSINS (PDF)

Skattarit SA 2012 - forsíða