Tækifæri í kreppunni

Fólk sem stöðu sinnar vegna er tekið alvarlega hefur nýverið haldið fram þeirri firru að staðan í atvinnulífinu væri góð. Einungis 10% hagkerfisins væri í vanda. En þá gleymdist að geta þess að landsframleiðslan dróst saman um 200 milljarða króna í fyrra, hvað þá að ríkissjóður verður rekinn með ríflega 500 milljarða króna halla á árunum 2020-2021 með tilheyrandi skuldasöfnun eða að Seðlabankinn hefur selt gjaldeyri fyrir 170 milljarða króna frá ársbyrjun 2020. Það gleymdist reyndar líka að nefna að um 25 þúsund einstaklingar eru á skrá um atvinnulausa með öllum áhyggjum sem því fylgja fyrir fólkið og félagslegum afleiðingum. Þess var heldur ekki getið að atvinnuþátttaka á Íslandi hefur ekki verið minni í áratugi.

 

Langvinnt atvinnulausum fjölgar. Almenn regla segir að mikil hækkun raunlauna fækki störfum og fjölgi atvinnulausum. Reglan gildir líka á Íslandi. Hún breytist ekki þótt forysta verkalýðshreyfingar taki breytingum. Það dugar ekki að stinga höfðinu í sandinn. Engar töfralausnir skapa störf fyrir 25þúsund atvinnulausa eða þá sem eru á hlutabótum. Nú er spáð yfir 5% atvinnuleysi næstu fimm ár. Þorri Íslendinga hefur hingað til ekki sætt sig við mikið og langvinnt atvinnuleysi ogþað viðhorf hefur ekki breyst. Aðilar vinnumarkaðarins verða að horfast í augu við staðreyndir og bregðast við af raunsæi. Samfélagslegur kostnaður atvinnuleysis er of mikill og aðstæður fjölda fólks eru óviðunandi. Því miður hafa samningsaðilar brugðist hlutverki sínu. Kaupmáttur launa starfandi fólks batnar stöðugt en atvinnulausir sitja eftir. Laun hafa hækkað of mikið og fjölgað fólki án vinnu.

 

Skuldadagar

Áframhaldandi aukning kaupmáttar þeirra sem eru í starfi,samhliða fjöldaatvinnuleysi, er óheillavænlegt ástand sem er til þess fallið að auka ójöfnuð. Slíkt ástand dregur einnig úr framleiðslukrafti hagkerfisins. Efnahagslögmál sjá til þess að kaup og kjör lagast alltaf að endingu að greiðslugetu fyrirtækja og framleiðni í atvinnulífinu. Það kemur að skuldadögum. Í aðdraganda Alþingiskosninga hljótastjórnmálaflokkar að setja atvinnumál á oddinn og þá með með öðrum hætti en innihaldslausum tillögum um fjölgun starfa hjá hinu opinbera. Annars bregðast þeir kjósendum sínum og sérstaklega þeim sem eru án atvinnu.

 

Kjarasamningar á almennum vinnumarkaði losna eftir 18 mánuði. Það ætti öllum að vera ljóst að ekki verður haldið áfram á þeirri braut að hækka laun hér á landi margfalt meira en svigrúm er fyrir og fela Seðlabankanum að stuðla að stöðugu verðlagi á sama tíma. Mótsögnin er augljós og afleiðingarnar þekktar.

 

Lausnin felst í verðmætasköpun 

Fyrirtæki og atvinnulífið í heild skapa verðmætin sem standa undir samneyslu og velferðarkerfi. Heilbrigð og samkeppnishæf rekstrarskilyrði, hóflegir skattar og gegnsæjar reglur eru forsendur þróttmikils atvinnulífs. Fjárfestingar, vöruþróun, nýsköpun og markaðssókn er eina færa leiðin til að skapa verðmæti og leggja grunn að fjölgun starfa, auknum tekjum fólks og skatttekjum til hins opinbera. Sem dæmi er nýliðin loðnuvertíð gríðarleg innspýting í lykilbyggðarlög á krefjandi tíma.

 

Lausnin felst ekki í enn meiri umsvifum ríkis og sveitarfélaga til að bæta upp töpuð störf og verkefni í einkageiranum. Forsendur verðmætasköpunar eru til staðar og að þeim verður að hlúa. Tækifærin eru mörg. Sjávarútvegurinn, orkugeirinn, öflug iðnfyrirtæki, heilbrigðistækni, sprotafyrirtæki á fjölmörgum sviðum ásamt þjónustu og fyrirtækjum í öðrum greinum búa við mikla möguleika til að vaxa og dafna. Ferðaþjónustan mun einnig ná vopnum sínum og vonandi komast á skrið sem fyrst.

 

Það má láta sig dreyma um álíka samstöðu um leið út úr atvinnuvandanum og ríkt hefur gegn kórónuveirunni. Þótt slík samstaða sé ekki í augsýn kæmi hún atvinnulausum best og stuðlaði að sjálfbærri þróun á komandi árum. En sporin hræða.

Halldór Benjamín Þorbergsson er framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu