Sylvía stýrir umræðum um lesblindu eftir frumsýningu
Talið er að allt að 20% fólks glími við einhvers konar lesblindu, sem er þroskaröskun á námshæfni í lestri, skrift, stafsetningu og stærðfræði, auk þess sem hún getur birst í slæmu tímaskyni og lélegri ratvísi. Það er auðvelt að sjá í hendi sér þau tækifæri sem geta falist í að virkja þennan hóp og efla til góðra verka, en til þess þarf nýjar leiðir í menntamálum og jafnvel samfélaginu öllu.
Sem innlegg í þessa mikilvægu umræðu gengu Samtök atvinnulífsins til liðs við Sylvíu Erlu Melsted, Sagafilm og fleiri um framleiðslu á heimildamyndinni. Sagafilm er framleiðandi myndarinnar en í henni kynnumst við Sylvíu og kerfi sem hún þróaði til að takast á við lesblindu og afleiðingar hennar. Hún greindist seint og hafði mikið fyrir því að klára grunn- og framhaldsskóla og kom sér upp fjölbreyttri tækni sem einnig hefur nýst fólki sem ekki er lesblint.
Umræðuþáttur SA í umsjón Sylvíu Erlu Melsteð fer fram í kvöld á Facebook Live kl. 20:45 að lokinni frumsýningu á heimildamyndinni á RÚV. Í umræðuþættinum er rödd atvinnulífsins, menntafrumkvöðla og ráðamanna um efnið dregin fram. Spjallið verður opið áhorfendum sem vilja tjá sig.
Horfa á þáttinn á Facebook Live