Svigrúm til launahækkana lítið
Útflutningsfyrirtæki eru aðþrengd og svigrúm þeirra til launahækkana er nánast ekki neitt. Þetta sýnir könnun Samtaka atvinnulífsins meðal aðildarfyrirtækjanna. Spurt var um mat þeirra á svigrúmi til launahækkana á árinu 2019. Að jafnaði töldu ferðaþjónustufyrirtæki svigrúmið vera 1,2%, fyrirtæki í útflutningi vöru og þjónustu 1,7% en önnur fyrirtæki 2,1%. Meðalniðurstaðan var 1,9%.
Ljóst er að það hefur harðnað verulega á dalnum í ferðaþjónustu en að jafnaði töldu 65% ferðaþjónustufyrirtækja ekkert svigrúm fyrir hendi til launahækkana á næsta ári. Staðan er svipuð í öðrum greinum en rúmlega helmingur útflutningsfyrirtækja taldi ekkert svigrúm til launahækkana og 36% annarra fyrirtækja. Að meðaltali telja 43% forsvarsmanna ekkert svigrúm til launahækkana 2019.
Niðurstöðurnar koma ekki á óvart í ljósi launaþróunar á tímabili gildandi kjarasamninga, þ.e. frá upphafi ársins 2015:
- Regluleg laun hækkuðu um 33% skv. Hagstofunni.
- Lágmarkslaun kjarasamninga voru hækkuð um 40%
- og kaupmáttur launa jókst um 24%.
Þessar tölur eru mjög háar samanborið við nágrannalönd okkar en vegna hagstæðra ytri skilyrða, margföldunar erlendra ferðamanna, styrkingar gengis krónunnar, niðurfellingar tolla og vörugjalda og hagræðingar fyrirtækja, hélst verðbólga í skefjum. Frekari launahækkanir verða ekki án neikvæðra afleiðinga en laun á Íslandi eru orðin mjög há miðað við þau lönd sem hæst laun greiða í heiminum, s.s. Noreg, Danmörku og Svíþjóð eins og meðfylgjandi mynd sýnir.
Heimildir: Hagstofur Danmerkur, Íslands, Noregs og Svíþjóðar.[1]
Í könnun SA var stjórnendum boðið að tjá sig um stöðuna á vinnumarkaðnum og kom ýmislegt athyglisvert í ljós um samkeppnisstöðu við útlönd. Raunveruleg hætta er á að störf flytjist úr landi og minnkandi framleiðslu þeirra verðmæta á Íslandi sem standa undir lífskjörum þjóðarinnar.
Um var að ræða netkönnun meðal aðildarfyrirtækja SA dagana 22. -31. ágúst. Alls bárust 523 svör og var svarhlutfall 31%. Outcome-kannanir sáum um framkvæmd könnunarinnar en um er að ræða reglulega könnun SA í aðdraganda kjarasamninga á almennum vinnumarkaði.